Ljóð unga fólksins árið 2012

Á degi íslenskrar tungu, sem haldinn er ár hvert á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember, er ekki úr vegi að minna á „Ljóð unga fólksins“.

„Þöll, samstarfshópur um barna- og unglingamenningu á bókasöfnum, hratt samkeppninni af stað vorið 1998, þá sem ljóða- og smásagnakeppni. Ári síðar var ákveðið að hafa einungis ljóðasamkeppni og hlaut hún þá nafnið „Ljóð unga fólksins”. Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna hafa nú tekið við keflinu og er þetta í sjöunda sinn sem keppnin er haldin.

Gefin verður út bók með verðlaunaljóðunum ásamt úrvali ljóða úr keppninni eins og gert hefur verið í fyrri keppnum. Að þessu sinni sér samstarfshópur forstöðumanna skóla- og almenningssafna í Kópavogi um val ljóða og útgáfu bókarinnar.

Þátttakendum er skipt niður í tvo aldurshópa, 9-12 ára og 13-16 ára, og getur hver þátttakandi skilað inn mest þremur ljóðum. Verðlaun verða afhent í tengslum við „Dag bókarinnar“ 23. apríl sem er í „Viku bókarinnar“.

Skilafrestur er til 1. desember 2012. Verðlaunaafhending fer fram í þeim almenningsbókasöfnum eða skólasöfnum sem taka þátt og eru staðsett næst verðlaunahöfum.

Foreldrar eru hvattir til að vekja athygli barna sinna á samkeppninni og nota tækifærið til að heimsækja bókasafnið sitt til að velja ljóðabækur og lesa og skoða ljóð með börnum sínum.

Íslenskukennarar og starfsfólk almenningsbókasafna víða um land leiðbeina um frágang og taka á móti ljóðum í samkeppnina. Þau mega bæði vera rituð á pappír og tölvu og ekki skemmir að teikna eða lita mynd sem tengist efni kvæðisins. Í fyrri bókum má sjá nokkrar myndir sem voru valdar til að skreyta kápuna.

Til að skoða meira um samkeppnina má leita í leitarvélum á netinu með leitarstikunni „Ljóð unga fólksins“ samkeppni. Í Gegni.is er auðvelt að finna hvaða bókasöfn eiga bækurnar.“