Litið yfir farinn veg ársins 2011

Þegar sest er niður og hugleitt hvað markverðast skal telja á árinu sem senn er liðið þá verður það að segjast eins og er að af nógu er að taka.

Inn í árið var lagt með breytingar á stjórnsýslu sveitarfélagsins í farteskinu og með það að markmiði m.a. að stíga á árinu veigamikil skref á þeirri vegferð að aðlaga rekstur sveitarfélagsins að tiltölulega þungum efnahag en halda þó uppi öflugu þjónustustigi. Með samstilltu átaki bæði kjörinna fulltrúa og öflugs starfsfólks held ég að mér sé óhætt að segja að þessi vinna hefur gengið vonum framar.

Að öðrum ólöstuðum eru það tvö verkefni sem standa þó upp úr þegar litið er til þess sem varðað hefur leið okkar um refilstigu ársins 2011. Annars vegar er það yfirfærslan á umsjón með þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga og hins vegar er það unglingalandsmót UMFÍ sem haldið var á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina sl. sumar.

Þann fyrsta janúar 2011 tóku sveitarfélögin við allri umsjón með þjónustu við fatlaða. Ýmsir aðilar, bæði innan sveitarstjórnarstigsins sem og annars staðar frá, höfðu uppi efasemdir um að sveitarfélögin væru í stakk búinn til að taka við þessum veigamikla málaflokki. Ég, ásamt fleirum, talaði hins vegar mjög ákveðið fyrir því að við héldum okkar striki enda var búið að vinna hér á Austurlandi vandaða undirbúningsvinnu er miðaði að því að yfirfærslan mætti ganga farsællega fyrir sig. Það hefur síðan komið í ljós að sú skoðun okkar að við værum í stakk búin til að taka við málaflokknum reyndist á rökum reist. Ég vil því nota þetta tækifæri og þakka því ágæta starfsfólki sveitarfélagsins sem kom að þessu verkefni fyrir frábært starf. Með starfsfólki sveitarfélagsins á ég bæði við það starfsfólk sem var fyrir innan stjórnsýslu þess sem og það starfsfólk sem kom með málaflokknum, því til allrar lukku valdi það að fylgja honum og taka virkan þátt í að láta verkefnið takast.

Um verslunarmannahelgina var haldið unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum og samkvæmt mótshöldurum voru gestir á mótinu liðlega 10 þúsund talsins. Það er ekki á hverjum degi sem slíkur fjöldi leggur leið sína um okkar ágæta sveitarfélag og er ánægjulegt til þess að vita að það skuli hafa gengið hnökralaust fyrir sig. Undirbúningsvinnan hófst á árinu 2010, fór síðan í markvissan farveg innan stjórnsýslu sveitarfélagsins snemma á vordögum og stóð fram að mótssetningu. Í sumar kom í ljós að við erum í stakk búin til að standa að viðburðum sem þessum og er mikilvægt að sú þekking og fjárfesting sem hér er til staðar verði nýtt. Við eigum því að vera ófeimin við að halda okkar merki á lofti varðandi þessi mál í framtíðinni með það að markmiði að stuðla þannig að eflingu bæði atvinnu- og mannlífs hér á svæðinu.

Eins og áður sagði er af ýmsu öðru að taka s.s. sem áhugaverðum íbúafundum, samstarfi sveitarfélaga í landshlutanum, hugmyndum varðandi atvinnuuppbyggingu m.m. Ég ætla hins vegar að láta hér staðar numið enda erindinu ekki ætlað ótakmarkað rými í blaðinu.

Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að færa samstarfsfólki mínu, kjörnum fulltrúum, austfirsku sveitarstjórnarfólki og íbúum hér þakkir fyrir ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða og fyrir þá viðkynningu sem ég og fjölskylda mín höfum mætt hér.

Megum við öll eiga gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár!

Björn Ingimarsson bæjarstjóri

Greinin birtist í jólablaði Austurgluggans.