- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Leikstjóri er Oddur Bjarni Þorkelsson, en hann er orðinn Héraðsbúum að góðu kunnur fyrir uppsetningar undanfarinna ára.
Hann leikstýrði fyrst söngleiknum My Fair Lady hjá félaginu árið 1998 en mönnum er líklega ferskast í minni uppsetning hans á verkinu Sex í sveit sem sló eftirminnilega í gegn hjá félaginu á síðasta leikári.
Höfundur verksins er Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, innfæddur Héraðsbúi, uppalin í Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, sem hefur undanfarin ár æft sig fyrir þetta verkefni með því að nema bókmenntafræði og skrifa verk fyrir Leikfélagið Hugleik í Reykjavík og Stúdentaleikhúsið. Leikarar í sýningunni eru þau Eygló Daníelsdóttir, Oddný Ólafía Sævarsdóttir og Þráinn Sigvaldason. Í leikritinu er fylgst með ævi þeirra Didda, Duddu og Dúu frá því þau eru kornabörn og allt þar til þau eru komin á elliheimili og samböndum þeirra eru gerð skil á fyndinn og skemmtilegan hátt. Einnig koma fjölmargir félagar að útlitshönnun og umgjörð sýningarinnar.
Leikfélag Fljótsdalshéraðs heldur upp á 40 ára afmæli sitt um þessar mundir. Félagið hefur starfað nær óslitið frá árinu 1966 og hefur verið snar þáttur í menningarlífi Austurlands í allan þann tíma. Á þessum afmælisvetri stefnir félagið að fjölbreyttri og öflugri starfsemi. Starfsemi leikársins hófst í sumar á sýningum á verkinu Miðsumarnæturdraumar í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar. Einnig var haldin kvöldskemmtun í ágúst, en þá voru akkúrat 40 ár liðin frá stofnun félagsins. Einnig hefur í haust verið boðið upp á námskeið fyrir börn og unglinga. Og nú er komið að næstu frumsýningu.
Sýningar á Listinni að lifa verða sem hér segir:
Laugardag 11. nóvember – Frumsýning
Sunnudag 12. nóvember
Föstudag 17. nóvember
Sunnudag 19. nóvember
Föstudag 24. nóvember
Sunnudag 25. nóvember – Lokasýning
Allar sýningar hefjast kl. 20.30
Miðapantanir í síma 846 2121 eða á Bókasafni Héraðsbúa