Listin að lifa áhugaverðust

Dómnefnd Þjóðleikhússins hefur valið sem áhugaverðustu áhugaleiksýninguna 2006-2007 Listina að Lifa, sýningu Leikfélags Fljótsdalshéraðs á verki Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar.

Þjóðleikhússtjóri, Tinna Gunnlaugsdottir, tilkynnti valið á hátíðarkvöldverði á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga, Hallormsstað. Jafnframt bauð hún Leikfélagi Fljótsdalshéraðs að sýna Listina að lifa í Þjóðleikhúsinu á næstu vikum. Höfundur verksins Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Þráinn Sigvaldason formaður félagsins tóku við viðurkenningunni.
Tíu leiksýningar sóttu um að þessu sinni og í umsögn dómnefndar kom fram að þær hefðu verið afar fjölbreyttar og metnaðarfullar. Auk Listarinnar að lifa var sérstaklega var minnst á sýningarnar Batnandi maður hjá Halaleikhópnum, Bingó hjá Hugleik og Leikfélagi Kópavogs, Epli og eikur hjá Hugleik og Examinasjón hjá Stúdentaleikhúsinu.

Í um sögn dómnefndar um Listina að lifa segir:
“Í Listinni að lifa fer saman góð tilfinning höfundar fyrir því sem gerir texta áhugaverðan til flutnings á leiksviði sem og skapandi og frumleg úrvinnsla leikstjórans á efnivið höfundar. Leikritið lýsir lífi þriggja einstaklinga nánast frá vöggu til grafar og er margslungið í einfaldleika sínum. Höfundur fjallar m.a.um ást og vináttu, framhjáhald og svik og gefur okkur leikræna mynd af þeim línudansi sem lífið stundum er. Leikendurnir þrír skila þessum línudansi af sannfæringu og skapa þannig eftirminnilega sýningu. Í uppfærslunni hefur leikstjórinn unnið meðvitað með leikmynd, liti, ljós og hljóð, allt til að ná fram áhrifum leiktextans og sérkennum persónanna í verkinu. Í heildina er Listin að lifa verulega athyglisverð leiksýning þar sem leiktexti mætir leiksviði í frjóu og fallegu sampili.” Nánar má lesa um þetta á Leiklistarvefnum.