Listamenn gera víðreist og standa í stórræðum

Mikill kraftur er um þessar mundir í menningarsamstarfi Austurlands, Vesteralen í Noregi og Donegal á Írlandi, en samstarfið á sér orðið nokkurra ára hefð.  Blúsband Guðgeirs, frá Fljótsdalshéraði, lék á tveimur stöðum á árlegri Djasshátíð í Sortland í Vesteralen um síðustu helgi.  Blúsbandið hélt þar tvenna tónleika. Síðustu ár hafa djassistar frá Austurlandi spilað á þessari hátíð. Blúsbandinu hefur þegar verið boðið að koma og spila á annari hátíð í Norður Noregi næsta vor. Hér má finna upplýsingar um djasshátíðina í Sortland. 

Um þessar mundir dvelur listamaðurinn Sandra Mjöll Jónsdóttir, frá Fljótsdalshéraði, í Bø kommune í Vesteralen. Sandra mun vinna þar í þrjár vikur að verkefnum á sviði ljósmyndunar og halda þar sýningu.
 
Um miðjan október stendur Ólöf Björk Bragadóttir myndlistarmaður, á Fljótsdalshéraði, fyrir vinnubúðum á Eiðum sem kallast “Fljótið og hringurinn”. Útgangspunkturinn er Lagarfljótið og Fljótsdalshringurinn, litaspil fljótsins og hljómur, lífríki, skógurinn, gróðurinn, mannvirki og menning. Markmiðið með verkefninu er að efla listsköpun í fjórðungnum og nýta einstaka náttúrufegurð sem hér er til þess. Tengsl náttúru og ólíkra listgreina eru útgangspunktur verkefnisins.  Listamennirnir munu rýna í náttúruna og vinna út frá henni ný spennandi listaverk. Vinnubúðunum lýkur með sýningu í Sláturhúsinu. Á meðal þátttakenda er gert ráð fyrir tveimur listamönnum frá Vesteralen.
 
Þá mun Hótel Hérað og Ekspedisjonen veitingahúsið í Nyksund og Sortlandi, í Vesteralen, skiptast á kokkum í haust og vetur.

Þessa vikuna eru Lára Vilbergsdóttir og Guðjón Sigvaldason í Donegal á Írlandi á vegum MMF og Frú Normu. Þau eru þar að kynna sér betur undirbúning og skipulag karnivalhátíða, en undanfarin tvö sumur hafa skipuleggjendur karnivalhátíða í Donegal komið til Egilsstaða til að kenna m.a. búningagerð.

Á næstu dögum mun Elva Hlín Pétursdóttir, safnstjóri á Minjasafni Austurlands fara til Vesteralen  vegna samstarfsverkefnis safna á Austurlandi, í Vesteralen og í Donegal.

Loks má geta þess að um næstu helgi eru tveir tónlistarmenn frá Vesteralen væntanlegir til þriggja vikna dvalar í Skriðuklaustri. Fjórir listamenn frá Vesteralen hafa áður dvalið þar. 

Flest þessara verkefna hafa verið studd af Menningarráði Austurlands og menningarráðum hinna landanna í samræmi við umsóknarferli þeirra.