Listahópurinn Bazinga lýkur störfum og frumsýnir nýja stuttmynd

Listahópur vinnuskólans á Fljótsdalshéraði, Bazinga, hefur nú lokið störfum. Hópurinn setti upp sýninguna Í myrkrinu í Sláturhúsinu í sumar. Alls voru sýndar 5 sýningar og komu um 100 áhorfendur, börn jafnt sem fullorðnir, á sýningarnar.

Hópurinn lauk starfsemi sinni á stuttmyndanámskeiði fyrir eldri nemendur hópsins. Á námskeiðinu lærðu nemendur handritagerð, upptökur og klippingu í forritinu imovie. Markmið námskeiðsins var að nemendur yrðu sjálfbjarga í að gera stuttmyndir og vídjóverk á eigin vegum í náinni framtíð. Stuttmyndina, sem sjá má hér,  unnu nemendur alfarið sjálfir, allt frá hugmyndavinnu að klippingu.

Starfið var afar vel heppnað í ár, að sögn Emelíu og Ingibjargar, umsjónarmanna hópsins. Nemendur hópsins unnu hörðum höndum í allt sumar og unnu jafnvel fram á kvöld til að æfa og klára leikmynd. Það er ljóst að það leynast miklir listrænir hæfileikar hjá ungmennum héraðsins og mega foreldrar þeirra sem tóku þátt vera stoltir af sínum börnum.

Hópurinn vill nota tækifærið til að þakka þeim áhorfendum sem komu á sýningarnar, sem og fyrirtækinu Yl fyrir leikmynd og Leikfélagi Fljótsdalshéraðs fyrir lán á búningum.