Listahópur vinnuskólans tekur til starfa

Listahópur vinnuskólans á Fljótsdalshéraði hefur tekið til starfa á ný eftir veturlangt hlé. Í ár nefnist hópurinn Danshópurinn BAMBUS og er Emelía Antonsdóttir Crivello umsjónarmaður hópsins.

Verkefni BAMBUS verða fjölbreytt og má með sanni segja að meðlimir hópsins vinni sveittir að hverju verkefni. Þeir sækja danstíma alla morgna í íþróttahúsinu kl.9.00. Eftir danstímann og eftir hádegi er unnið að öðrum skapandi verkefnum, en þar má meðal annars nefna skapandi kennslustund þar sem meðlimir læra að semja sína eigin dansa og atriði, gjörninga, leiklist, tónlist og vídjóverk.

Hópurinn vinnur þessa stundina að stuttmyndum sem sýndar verða í Sláturhúsinu föstudaginn 8. júlí kl.15.30 og er öllum velkomið að koma og sjá afraksturinn. Þá sýnir hópurinn frumsamið dansatriði á afmælishátíð ÚÍA á laugardaginn kemur í Tjarnargarðinum. Dagskráin hefst kl.17.00.

Hér má sjá kynningarmyndband á meðlimum hópsins: http://www.youtube.com/watch?v=f4kU7x2Dt30

Einnig má fylgjast með starfsemi BAMBUS á www.facebook.com/DanshopurinnBambus

Héraðsbúar eru hvattir til að fylgjast með þessu hæfileikaríka fólki.