Listahópur vinnuskólans býður á lokasýningu

Klikk, listahópur vinnuskólans á Fljótsdalshéraði sumarið 2012 heldur lokasýningu föstudaginn 27. júlí kl. 17.00 í Sláturhúsinu.  Dagskrá sýningarinnar er fljölbreytt en það verða til sýnis málverk, teikningar, ljósmyndir, vídeóverk og frumflutt rapp eftir meðlimi hópsins.  Jafnframt mun hópurinn frumsýna dansverkið "Ertu að fá skalla?", innan um sýninguna "Feðgar mæðgin" sem nú er uppi í Sláturhúsinu.  Þema sýningarinnar er líkaminn og voru einstaklingsverkefni meðlima hópsins unnin út frá því.
S.l. sex vikur hefur hópurinn stundað danstíma hvern morgun í íþróttahúsinu ásamt því að vinna að öðrum skapandi verkefnum.  Umsjónarkona hópsins er Emelía Antonsdóttir og meðlimir hópsins þetta sumarið voru Dagbjört Lilja Björnsdóttir, Helga Jóna Svansdóttir, María Von Pálsdóttir, Móeiður Klausen, Natalía Gunnlaugsdóttir, Steinunn Bjarkey Gunnlaugsdóttir og Vilborg Björgvinsdóttir.
Hópurinn hvetur alla til að koma á þessa glæsilegu dagskrá og berja framtíðarlistamenn augum. Það er ókeypis inn.