List án landamæra sett á laugardaginn

List án landamæra á Fljótsdalshéraði verður formlega sett í Sláturhúsinu laugardaginn 5. maí.
List án landamæra á Fljótsdalshéraði verður formlega sett í Sláturhúsinu laugardaginn 5. maí.

List án Landamæra á Fljótsdalshéraði verður opnuð með formlegum hætti í Sláturhúsinu menningarsetri á Egilsstöðum laugardaginn 5. maí klukkan 17. Margt er á dagskrá hátíðarinnar, eins og undanfarin ár, sem að þessu sinni fer öll fram í Sláturhúsinu. Flutt verður tónlist og opnaðar eru sex sýningar. Kynnar hátíðarinnar verða þau Daníel Johan Ström og Dísa María Egilsdóttir. Sýningarnar verða opnar til 15. maí.

Frystiklefinn, Sláturhúsi menningarsetri

  • Myndbrot - DJ/Vj - Tónlist.
  • Aron Kale listamaður List án landamæra 2018.
  • Tónlistargjörningur - Daníel Björnsson og Magnús H. Helgason.
  • Tónlistaratriði frá starfsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum - Aðalheiður Ósk Kristjánsdóttir – Elísa Petra Bohn og Signý Þrastardóttir undir stjórn Margrétar Láru Þórarinsdóttur.


Sýningar í Sláturhúsi menningarsetri:

  • Litasprengja að vori - Frá Ásheimum mann- og geðræktarmiðstöð. Samsýning Eyglóar Gísladóttur, Guðnýjar Hólmfríðar Jónsdóttur, Ingibjargar Ragnarsdóttur og Guðbjargar Þórisdóttur. Unnin undir handleiðslu Ingu Rósar Unnarsdóttur hönnuðar og eiganda Frá Héraði.
  • Sköpun - Frá Stólpa vinnu- og verkþjálfunarstað. Samsýning í samstarfi við Ástu Sigfúsdóttur listakonu.
  • Tónar í sandi - Sýning á verkum Aðalheiðar Óskar Kristjánsdóttur sem unnin voru á Starfsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum í vetur.
  • Timburmenn - Samsýning Karls Sveinssonar, Kristófers Ástvaldssonar, Kristbjörns Ingibjörnssonar, Daníels Johan Ström og Dísu Maríu Egilsdóttur og unnin voru undir handleiðslu Gissurar Árnasonar smíðakennara og listamanns.
  • Kvíðaprjón - sýning á prjónaverkum Ingibjargar Ragnarsdóttur.
  • Vorblótið - sýning á verkum listahópsins D.J.A.M - Daníels Björnssonar, Jónínu Báru Benediktsdóttur, Arons Kale og Matthíasar Þórs Sverrissonar og unnin voru undir handleiðslu Ólafar Bjarkar Bragadóttur kennslustjóra Listnámsbrautar ME og myndlistarkonu.


Á vefsíðu hátíðarinnar segir meðal annars: „List án landamæra er listahátíð með áherslu á fjölbreytileika mannlífsins. Allir sem vilja geta tekið þátt! Á hátíðinni vinnur listafólk saman að allskonar list með frábærri útkomu. Það leiðir til auðugra samfélags og aukins skilnings manna á milli.
Ákveðið var að efna til þessarar hátíðar á Evrópuári fatlaðra árið 2003 og hefur verið haldin árlega síðan. Hátíðin hefur breyst og þróast ár frá ári og fleiri eru að verða meðvitaðir um gildi hennar í listalífinu, bæði þátttakendur og njótendur. Hátíðin hefur stuðlað að samvinnu við listasöfn, starfandi listafólk, leikhópa og tónlistarfólk svo eitthvað sé nefnt.“

Auglýsinguna í heild má sjá hér.