List án landamæra á Austurlandi

Tvær opnanir verða í tilefni hátíðarinnar List án landamæra 2019 á Austurlandi.  Önnur verður í Sláturhúsinu á Egilsstöðum miðvikudaginn 8. maí klukkan 18 og hin í Gallerí Klaustri, Skriðuklaustri laugardaginn 11. maí klukkan 14.

Nemendur af listnámsbraut ME sjá um skipulagningu hátíðarinnar í ár undir leiðsögn kennslustjóra brautarinnar, Ólafar Bjarkar Bragadóttur.

Verkin sem verða til sýnis koma víða að en sýningin er haldin í samstarfi við bæði einstaklinga og hópa sem vildu taka þátt og láta ljós sitt skína. Heimsmarkmiðin og sjálfbærni voru höfð að leiðarljósi í mörgum verkanna og ekki síst hvað varðar að eyða fordómum og vinna að jafnrétti í heiminum öllum til handa.

FÖGNUM FJÖLBREYTILEIKANUM OG GLEÐJUMST SAMAN

Á listahátíðinni má sjá: Handverk, þrykk, textílverk, handgerð kerti og aðra nytjalist frá Stólpa, skúlptúra, málverk, teiknimyndaseríur o.fl. frá nemendum leik- grunn- og framhaldsskóla af Austurlandi.

Samstarfsverkefni listamannanna Odee og Arons Kale verður í Sláturhúsinu, kvikmyndin Byrjuð að leita, sem er afrakstur kvikmyndanema ME/VA í samstarfi við Stúdío Sýrland, heimildamynd Önnu Birnu um Vistsporin og heimsmarkmiðin. Þá verða sýndar nokkrar kvikmyndir nemenda starfsbrautar ME og Stólpa; Kristbjörn, Valtýr á grænni treyju, Nátttröllið, Ævintýri og Töfraflautan. Verkið Tyggjó sem er lokaverkefni Steingríms Arnar nemanda í ME verður í frystiklefanum, Ljósmyndasýning KOX – filman er ekki dauð á efri hæð Sláturhússins. Tónlistaratriði nemenda ME, Sokara, Kristófer og fleiri, verða flutt við opnun.

Boðið verður upp á léttar veitingar við opnun, frítt inn og allir velkomnir.
Báðar sýningarnar eru opnar á opnunartímum húsanna og standa út mánuðinn.