List án landamæra 2009

Undanfarin ár hefur verið haldin á Fljótsdalshéraði hátíðin „List án landamæra“.  Ekki verður breyting á því þetta árið því framundan eru ýmis námskeið sem haldin eru í mars og apríl og svo uppskeruhátíð 2. maí undir yfirskriftinni „List án landamæra 2009“.

Þau námskeið sem meðal annars verður boðið upp á er stjórnað af bæjarlistamanni Fljótsdalshéraðs, Ólöfu Björk Bragadóttur sem er einnig listgreinakennari í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Ólöf kemur til með að standa fyrir námskeiði fyrir starfsfólk Stólpa og Kompunar í apríl þar sem allir þátttakendur gera eina sjálfsmynd.  Öll námskeið sem tengjast hátíðinni verða auglýst síðar. Þá eru nemendur á listnámsbraut ME að vinna sjálfsmyndir þar sem ljósmynd af þeim er breytt í photoshop sem eru svo settar á glæru og þeim varpað á karton og síðan málaðar í skærum akríllitum.
Ólöf hefur sent bréf á allar stofnanir sveitarfélagsins þar sem hún hvetur til þess að nemendur á Fljótsdalshéraði geri eina sjálfsmynd með tilstuðlan leikskólakennara, umsjónakennara og/eða myndlistarkennara hvers skóla fyrir sig. Þá hvetur hún kennara skólanna og alla íbúa sveitarfélagsins til að taka þátt í verkefninu.
Ólöf segir að ýmsum aðferðum megi beita við listsköpunina meðal annars  að þær verði teiknaðar, teknar ljósmyndir, ljósmyndir unnar í photoshop, málaðar eða t.d gerðir skúltpúrar úr hvaða efni sem er svo sem vír, leir, tré eða pappa.

Verkum þarf að skila í Sláturhúsið til Halldórs fyrir föstudaginn 24. apríl en uppskeruhátíð verður laugardaginn 2. maí þar sem sýndur verður afrakstur allra námskeiða og vonandi sjálfsmyndir frá sem flestum úr sveitarfélaginu, ungum sem öldnum.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku til Ólafar á netfangið obb@me.is  sem allra fyrst.