Lið GEE sigraði í Íslenskukeppni grunnskóla

Lið 10. bekkjar nemenda frá Grunnskólanum á Egilsstöðum og Eiðum sigraði í Íslenskukeppni grunnskóla á Austurlandi sem lauk í síðustu viku. Liðið keppti til úrslita við Grunnskóla Djúpavogs í beinni útsendingu Svæðisútvarps Austurlands.

Átta lið tóku þátt í keppninni þar af þrjú frá Héraði. Þetta er annað árið í röð sem keppnin er haldin. Það er menningarmálanefnd Vopnafjarðarhrepps sem hefur skipulagt keppninga með stuðningi frá Menningarráði Austurlands. Útvarpsmaðurinn kunni Karl Th. Birgisson samdi spurningarnar fyrir keppnina og var jafnframt spyrjandi, en keppnin er í anda þáttarins Orð skulu standa, sem Karl sér um á Rás 1.

Grunnskólinn á Egilsstöðum og Eiðum sendi þrjú lið í keppnina en tvö þeirra lentu í verðlaunasæti. Lið sem skipað var Óttari, Ásgeiri Boga og Bjarma endaði í 3. sæti og hlaut 50 þúsund krónur í verðlaun sem renna mun í ferðasjóð nemenda.

Freydís Selma, Rebekka Rós og Jónas Ástþór skipuðu sigurliðið sem hlaut 200 þúsund króna verðlaun sem jafnframt mun renna í ferðasjóð nemenda.