- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Bókasöfn víða um land halda upp á bókasafnsdaginn í dag með ýmsum hætti. Á bókasafni Héraðsbúa verður boðið á góðgæti með kaffinu eða djúsnum. Hægt verður að velja sér af gjafaborði eigulegar bækur sem safnið hefur ekki pláss fyrir. Þá er upplagt fyrir fólk, sem hefur gleymt að skila bókum lengi, að skila bókum því sektir verða afskrifaðar í tilefni dagsins.
Þetta er í annað sinn sem haldið er upp á bókasafnsdaginn. Markmiðið með honum er að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í landinu en jafnframt á hann vera dagur starfsfólks safnanna.
Í fyrra var tekinn saman listi yfir 100 bestu íslensku bækurnar sem starfsfólk bókasafna mælir með að allir lesi. Í ár var tekinn saman listi yfir 100 bestu barnabækurnar að mati bókasafnsfólks. Ljúfar bækur sem sem flestir hafa lesið sjálfir fyrir sig eða fyrir börnin sín. Í tilefni dagsins hafa nokkrar af barnabókinum á listanum, bæði gamlar og nýjar, verið teknar fram svo auðvelt sé að skoða þær.
Bókasafnið Héraðsbúa er opið í dag eins og alla virka daga frá klukkan 14 til 19. - Allir eru hjartanlega velkomnir.