Leitað að gögnum um fyrstu ár byggðar í Egilsstaðakauptúni

Egilsstaðakauptún árið 1955. Mynd tekin af ljósmynd í ramma.
Egilsstaðakauptún árið 1955. Mynd tekin af ljósmynd í ramma.

Fljótsdalshérað vinnur nú að gerð húsaskrár yfir elstu byggingar í sveitarfélaginu og snýr fyrsti áfangi verkefnisins að skráningu elstu húsa í Egilsstaðabæ. Verkefnið er unnið í samstarfi við Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands á Austurlandi og í samráði við Minjastofnun Íslands sem einnig veitti styrk til verkefnisins.

Skráning mannvirkja í eldri byggð rétt eins og fornleifaskráning er hluti þeirra verkefna sem lög segja fyrir um að sveitarfélög skuli sinna á sínu svæði, bæði í tengslum við skipulagsgerð og verndaráætlanir.

Verkefnið verður nánar auglýst og kynnt síðar en allir sem eru áhugasamir um sögu elstu bygginga í bænum og íbúa þeirra eða eiga í fórum sínum heimildir á borð við ljósmyndir eða skjöl sem snerta fyrstu ár byggðar í Egilsstaðakauptúni eru hvattir til að hafa samband við Unni B. Karlsdóttur sagnfræðing í síma 891 9979 eða á netfangið unnurk@hi.is