Leikskólabörnum á Fljótsdalshéraði fjölgar

Ánægðir hjólreiðakappar á Tjarnarlandi á snjóléttum apríldegi
Ánægðir hjólreiðakappar á Tjarnarlandi á snjóléttum apríldegi

Sú ánægjulega staða er í samfélaginu okkar að leikskólabörnum fjölgar, m.a. vegna þess að óvenju mörg eldri leikskólabörn eru að flytja til okkar. Jafnframt vill svo til að tveir óvenju stórir árgangar verða í leikskólunum á næsta skólaári, bæði 2013 og 2016 árgangarnir eru fjölmennir, en 2013 árgangurinn lýkur sinni leikskólagöngu á næsta skólaári.

Til að tryggja sem flestum leikskólavist hefur því verið ákveðið að bregðast við og finna tímabundna viðbót við húsnæði leikskólans Tjarnarskógar næsta skólaár.

Eftir talsverða skoðun á valkostum hefur verið ákveðið að nota neðri hæðina í einu húsanna í Vonarlandi fyrir yngstu leikskólabörnin næsta vetur. Varla þarf að taka fram að ákvörðunin er tekin í fullu samráði við stjórnendur leikskólans, sem sjá ýmis tækifæri í húsnæðinu. Úttekt eldvarnareftirlits,  heilbrigðiseftirlits og vinnueftirlits hefur farið fram og munu smávægilegar breytingar verða gerðar á húsnæðinu samkvæmt ábendingum þeirra. Útisvæðið verður aðlagað að hagsmunum yngstu barnanna.

Stjórnendur funduðu með foreldraráði leikskólans í Vonarlandshúsnæðinu 28. maí, en engar athugasemdir komu frá foreldraráðinu varðandi þessa ráðstöfun og því hefur verið tekin sú ákvörðum að hluti af 2017 árgangnum verði tekinn inn á Vonarlandsdeildina.

Næsta vetur verða því 10 starfandi deildir á Tjarnarskógi, en ítrekað skal að hér er um tímabundna ráðstöfun að ræða þar sem ekkert bendir til að þörf
verði á viðbótarúrræði skólaárið 2019-2020.

Vert er að minna á að tekin hefur verið ákvörðun um stækkun leikskólans Hádegishöfða og með þeirri framkvæmd verður varanleg aukning á leikskólarýmum í sveitarfélaginu.