Leikfélögin komin með húsnæði í Fellabæ

Í gær, 17. september, var gengið frá samningi milli Fljótsdalshéraðs, annars vegar og Leikfélags Fljótsdalshéraðs og Leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum, hins vegar, um aðstöðu til sameiginlegra afnota fyrir leikfélögin.

Aðstaðan sem um ræðir er að Smiðjuseli 2, þar sem áður var félagsmiðstöð. Með þessu er leyst úr brýnni þörf leikfélaganna fyrir rými til æfinga, félagsaðstöðu og munageymslu. Leikfélögin eru bæði mjög virk og mikilvæg fyrir menningarlífið á Austurlandi, enda setja þau upp eitt til tvö leikverk á hverju ári.

Leikfélag Fljótsdalshéraðs verður 50 ára á næsta ári og hafa um 60 leikverk verið tekin til sýningar frá stofnun þess. Það voru þeir Einar Rafn Haraldsson fyrir Leikfélag Fljótsdalshéraðs, Almar Blær Sigurjónsson fyrir Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum og Björn Ingimarsson fyrir hönd Fljótsdalshéraðs sem undirrituðu samninginn.