- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Leikfélag Fljótsdalshéraðs hélt upp á 50 ára afmæli sitt um helgina. Tvær sýningar voru haldnar í Valaskjálf, þar sem flutt voru lög úr nokkrum af ótal sýningum leikfélagsins.
Á laugardagskvöld var Kristrún Jónsdóttir, Dúrra, heiðruð og gerð að fyrsta heiðursfélaga félagsins. Halldóra Malín Pétursdóttir ein af "uppeldisbörnum" félagsins flutti ræðu og þakkaði Dúrru uppeldið og það sem hún hefur gert fyrir leikfélagið öll árin. Dúrra þakkaði fyrir sig og minntist á að hún hefði nú ekki verið með öll 50 árin – fyrsta árið hefði enginn vitað að hún hefði áhuga á leikhússtarfi.
Fyrsta formlega leiksýning Leikfélag Fljótsdalshéraðs var „Upp til selja“ árið 1966. Félagið var stofnað í kjölfar þess að áhugafólk sýndi „Skugga-Svein“ við opnun félagsheimilisins Valaskjálfar 17. júní það sama ár.
Í tilefni af afmælinu hefur verið sett upp sýning, með munum og myndum af starfi félagsins, í Sláturhúsinu, menningarmiðstöð á Egilsstöðum. Sýningin er opin frá klukkan 9 til 5 alla virka daga. Þar verða einnig sýndar gamlar vídeóupptökur af uppsetningum félagsins næstu fimmtudagskvöld.