- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Helgina 6.-8. október 2017 var árlegt Landsmót Samfés, samtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, haldið á Egilsstöðum. Hefur Landsmót Samfés verið haldið síðan 1990, en þá fór það fram á Blönduósi. Á mótinu í ár tóku þátt um 300 ungmenni, frá félagsmiðstöðvum alls staðar af landinu, ásamt 80 starfsmönnum. Voru það Árni Pálsson og Reynir Hólm Gunnarsson, starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar Nýjungar og Vegahússins ungmennahúss, sem stóðu að skipulagningu mótsins ásamt stjórn Samfés.
Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, setti Landsmótið á föstudagskvöld en í ár var það haldið undir yfirskriftinni: Okkar framtíð! Eftir setningu var landsleikur Tyrklands og Íslands í knattspyrnu karla sýndur á risaskjá fyrir þá sem áhuga höfðu og eftir leikinn var kosið í Ungmennaráð Samfés. Elva Dögg Ingvarsdóttir, nemandi í 10. bekk Egilsstaðaskóla var kjörin í Ungmennaráð Samfés og verður eflaust frábær fulltrúi Fljótsdalshéraðs á þeim vettvangi.
Á laugardegi voru smiðjur fyrir alla gesti Landsmótsins og voru þær staðsettar í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Voru smiðjurnar gríðarlega fjölbreyttar og var m.a. leitað til aðila á Fljótsdalshéraði til að stjórna smiðjum. Á laugardeginum var einnig frítt í sund fyrir Landsmótsgesti og um kvöldið var haldið ball í Egilsstaðaskóla þar sem fram komu DJ Doddi Mix, Helgi Ársæll og Alexander Jarl.
Á sunnudagsmorgni fór svo fram Landsþing ungs fólks, en skilaboð þinggesta eru m.a. þau að kosningaaldur eigi að lækka í 16 ár, en niðurstöður landsþingsins leggja línurnar fyrir hvert starfsár Samfés.
Er óhætt að segja að Landsmót Samfés og allir viðburðir því tengdu hafi farið vel fram og gengið vonum framar.