Landsmót Samfés á Egilsstöðum

Hið árlega Landsmót Samfés fer fram um helgina, 6. október til 8. október í Fljótsdalshéraði. Skráðir eru um 300 unglingar ásamt 80 starfsmönnum frá félagsmiðstöðvum víðsvegar af landinu.

Landsmót Samfés verður sett í Egilsstaðaskóla á föstudeginum. Að setningarathöfn lokinni fara fram kosningar í ungmennaráð Samfés sem er stærsta lýðræðislega kjörna ungmennaráð á Íslandi. Á laugardeginum gefst þátttakendum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum og fræðandi valdeflingar- og afþreyingarsmiðjum.

Sunnudaginn 8. október verður Landsþing ungs fólks haldið í fjártánda skiptið. Landsþingið er vettvangur fyrir ungt fólk til þess að ræða málefni sem á þeim brenna. Allt utanumhald er í höndum ungmennaráðs Samfés með stuðningi frá starfsfólki félagsmiðstöðva. Landsþingið skipar stóran sess í öllu starfi Samfés og ungmennaráðsins þar sem að niðurstöður landsþingsins leggja línurnar í áherslum hvers starfsárs fyrir sig.

Leiðarljós landsþingsins er 12.grein Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna sem segir: „Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi“.

Nánari upplýsingar veitir Victor Berg Guðmundsson framkvæmdastjóri Samfés í síma 897-5254 eða Svava Gunnarsdóttir formaður Samfés í síma 664-7600.