Landgræðsluverðlaun til Jökuldælinga

Bændur á tveimur bæjum á Jökuldal, Hvanná II og Hofteigi, fengu Landgræðsluverðlaunin 2012 ásamt hóp sem nefnist Ungmenni í Öræfum. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra veitti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Öræfum nýverið.

Jökuldælingarnir sem þarna voru heiðraðir eru Arnór Benediktsson og Ingifinna Jónsdóttir, bændur á Hvanná II, og Benedikt Arnórsson og Guðrún Agnarsdóttir, bændur á Hofteigi. Þau hafa verið þátttakendur í samstarfsverkefni bænda og Landgræðslunnar, Bændur græða landið, frá árinu 1994 og tekið þátt í þróun tilraunaverkefnisins Betra bús, en markmið þess er að bændur geri alhliða landnýtingaráætlanir fyrir jarðir sínar. Þá hafa Benedikt og Arnór hafa tekið virkan þátt í starfi Landbótasjóðs Norður-Héraðs sem ætlað er að græða land til mótvægis við það sem fór undir Hálslón.

Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju á Miðhúsum á Héraði.

Nánar má lesa um verðlaunin og sjá myndir á vef Landsgræðslunnar en þaðan er myndin sem fylgir fréttinni. Á henni má sjá verðlaunahafa ásamt umhverfisráðherra og Andrési Arnalds, fagmálastjóra Landgræðslu ríkisins.