Lagarfljótsmyndband fyrir sannleiksnefnd

Á bæjarstjórnarfundi í fyrradag var lagt fram bréf frá Hirti Kjerúlf þar sem hann óskaði eftir verðlaunum fyrir mynd af Lagarfljótsorminum, en eins og Héraðsbúar allir vita eflaust vakti myndband sem hann tók og birt var á vef RUV í febrúar og síðan víða um heim, verulega athygli.

Forseti bæjarstjórnar kynnti bæjarstjórn málið og lögð var fram eftirfarandi tillaga sem samþykkt var samhljóða.

„Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs þakkar erindi umsækjanda. Ljóst er að myndefni það sem tekið var og margir telja sýna Lagarfljótsorminn sjálfan, hefur vakið mikla athygli á heimsvísu og hafa erlendar sjónvarpsstöðvar m.a. heimsótt landið af því tilefni og fest á filmu náttúrufar, dýralíf og mannlíf sem kalla má einstakt á heimsvísu.

Þáverandi bæjarstjórn Egilsstaða stóð árið 1997 fyrir samkeppni þar sem heitið var hálfrar milljón króna verðlaunum fyrir mynd af Lagarfljótsorminum. Ekki þótti unnt að staðfesta með óyggjandi hætti að nein sú mynda sem kom fram í þeirri samkeppni væri af orminum sjálfum og uppfyllti þannig skilyrði til veitingar verðlaunanna. Bæjarstjórn samþykkti hins vegar að ef slík mynd kæmi einhvern tíma fram mætti vitja verðlaunanna. Eru það þessi verðlaun sem bréfritari er nú að kalla eftir.

Ljóst er að bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur enga ástæðu til að efast um heilindi og flekklausan karakter bréfritara. Þá er mikilvægt að taka skýrt fram að bæjarstjórn efast heldur ekki eitt augnablik um tilvist ormsins í Lagarfljóti. En sem vörslumönnum opinbers fjár telur bæjarstjórn sér þó ekki fært að samþykkja að greiða út verðlaunaféð án þess að málið fái vandaða og ítarlega meðferð á vettvangi stjórnsýslunnar. Því samþykkir bæjarstjórn að skipa sannleiksnefnd sem falið verði að leggja mat á hvort óyggjandi sé að myndefni það sem bréfritari vísar til sýni alveg örugglega Lagarfljótsorminn sjálfan.

Sannleiksnefndina skipi 13 einstaklingar, sem á grundvelli stöðu sinnar og sérþekkingar hvert á sínu sviði taki afstöðu til myndefnisins og skili áliti sínu til bæjarstjórnar. Í ljósi umfangs verkefnisins telur bæjarstjórn hæfilegt að veita nefndinni frest til loka yfirstandandi kjörtímabils til að ljúka störfum. Starf nefndarinnar er ólaunað.

Nefndina skipi eftirtaldir:
Formaður: Stefán Bogi Sveinsson forseti bæjarstjórnar
Gunnar Jónsson formaður bæjarráðs og ábúandi við fljótið
Sigrún Blöndal bæjarfulltrúi og áhugamaður um Lagarfljótsorminn
Katla Steinsson bæjarfulltrúi og ferðamálafrömuður
Skúli Björn Gunnarsson íslenskufræðingur og forstöðumaður Gunnarsstofnunar
Skarphéðinn Þórisson náttúrufræðingur og ljósmyndari
Hlynur Gauti Sigurðsson landlagsarkitekt, borgarskógfræðingur og myndatökumaður
Rán Þórarinsdóttir líffræðingur
Magnús Skarphéðinsson skólastjóri og sérfræðingur í dulrænum fyrirbærum
Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir þjóðfræðingur og ljósmyndari
Lára G. Oddsdóttir sóknarprestur á Valþjófsstað
Valdimar Gunnarsson formaður félags áhugmanna um skrímslasetur
Jónína Rós Guðmundsdóttir alþingismaður.“

Þessi bókun bæjarstjórnar hefur vakið nokkra eftirtekt og vitað er til að fjallað hefur verið um hana  á  ruv.is, smugan.is og agl.is. Þar kemur einnig fram að fleiri hafi hug á verðlaunfénu. Frétt agl.is um það mál má sjá hér.

Þá kom fram á vef agl.is í morgun að fleiri ásælast verðlaunaféð