Stefnt er að því að Forvarnaskólinn bjóði upp á nám á Egilsstöðum haustið 2008 fyrir þá sem vinna að forvörnum, s.s. í skólum, sveitarfélögum, félagasamtökum og fyrirtækjum á Austurlandi. Námið verður kynnt í Rauðakrosshúsinu á Egilsstöðum, kl. 13, föstudaginn 14. mars.
Til að af náminu verði næta haust þurfa amk 10 nemendur að stunda það á svæðinu. Kynningarfundurinn er opinn öllum.
Forvarnaskólinn, sem stofnaður var í janúar 2007, býður upp á nám fyrir þá sem vinna að forvörnum, s.s. í skólum, sveitarfélögum, félagasamtökum og fyrirtækjum. Markmið Forvarnaskólans er að auka þekkingu þeirra sem starfa að forvörnum og auka gæði forvarnastarfs með því að bjóða upp á skipulagða og skilgreinda fræðslu fyrir þá sem starfa að eða hyggjast starfa við forvarnir.
Inntak námsins:
Í náminu er m.a. fjallað um ýmis pólitísk álitamál sem varða forvarnir, rétt samfélagsins til forvarna og helstu átakalínur og hagsmuni.
Kynntar nokkrar kenningar um lýðheilsu og skilgreiningar á forvörnum. Hver eru viðfangsefni og vettvangur forvarna? Fjallað um lög og reglur sem afmarka forvarnir, s.s. áfengislög, lög um ávana- og fíkniefni, barnaverndarlög og sveitarstjórnarlög.
Tekin fyrir mismunandi sýn fólks á lýðheilsu og fjallað um mismunandi menningu og siði.
Fjallað um neyslu áfengis- og vímuefna á Íslandi, þróun vímuefnaneyslu og núverandi stöðu. Staðan á Íslandi borin saman við önnur lönd.
Farið í grundvallaratriði varðandi helstu viðfangsefni, rannsóknarform og mælitölur sem settar eru fram í rannsóknum. Hvernig er árangur forvarna metinn? Hver er vandinn við mat á árangri forvarna? Hvað segja rannsóknir okkur um árangur mismunandi leiða í forvörnum?
Kynntar kenningar og rannsóknir á áhættuhegðun ungmenna og teknir fyrir ýmsir áhrifaþættir áhættuhegðunar og innbyrðis tengsl ýmiss konar áhættuhegðunar.
Líffræðileg verkun og lyfjaáhrif vímuefna skýrð, svo og áhrif vímuefnaneyslu á heilsu fólks og hegðun. Lýst eðli og einkennum fíknsjúkdóma og rakin þróun vímuefnaneyslu ungmenna frá fikti til fíknar.
Sagt frá íhlutunar- og meðferðarúrræðum á Íslandi, einkum fyrir ungt fólk. Mismunandi sýn, áherslur og stefnur í meðferð.
Fjallað um nokkur mismunandi svið/vettvanga forvarna, s.s. skóla, sveitarfélög, fyrirtæki/vinnustaði, félagasamtök o.fl.
Nemendur setja upp framkvæmdaáætlun/forvarnaáætlun fyrir tiltekin valin svið.
Fyrirkomulag námsins:
Námið er alls 150 klukkustundir, 100 klukkustundir eru skipulagðar kennslustundir; 50 klukkustundir eru til heimanáms og verkefnavinnu. Kennarar og fyrirlesarar við skólann koma af ýmsum fagsviðum, með fjölbreyttan náms- og starfsbakgrunn. Námið við skólann er viðurkennt af alþjóðasamtökunum IC&RC. Nemendur sem útskrifast úr Forvarnaskólanum öðlast þar með rétt til þess að sækja um alþjóðlega viðurkenningu (skírteini) frá IC&RC.
Námsmat:
75% námsmats felast í gerð verkefnis (forvarnaáætlunar). Nemendur kynna verkefni sín fyrir samnemendum og kennara, rökstyðja og stjórna umræðum um þau og skila um þau skýrslu í lok kynningar. 25% námsmats byggist á ritgerð (skrifað um valið efni/spurningu í 2 klst. prófi).
Forsendur:
Á undanförnum árum hafa forvarnir fest sig í sessi sem viðfangsefni á mörgum sviðum samfélagsins, s.s. skólum, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Opinber stefnumörkun tekur á mörgum þáttum áhættuhegðunar og lífsstílstengdum vanda, s.s. Heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Þá hafa sveitarfélög, skólar, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sett sér sértækar forvarnaáætlanir, þ.e. áætlanir sem ganga út frá sérstöðu og verksviði viðkomandi og ráðið fólk til þess að sinna verkefninu.
Með þessu hefur aukist þörf fyrir sérþekkingu í forvörnum. Þeir sem nú ráðast til starfa í forvörnum koma að þeim á ýmsum forsendum og með ólíkan bakgrunn. Í því felst bæði kostur og galli. Kosturinn kann að vera sá að vegna mismunandi forsendna og bakgrunns leiti fólk mismunandi leiða í forvörnum, en gallinn kann að vera sá að grundvallarþekkingu skortir, s.s. varðandi áhrifaþætti, stefnumótun og framkvæmd. Þrátt fyrir ólíka nálgun í forvörnum á mismunandi sviðum eru þessir þættir líkir.
Stofnun Forvarnaskólans er svar við þessari þörf og óskum margra sem vinna að forvörnum um bætta fræðslu á þessu sviði.