Kynning á stjórnunar- og verndaráætlun Kringilsárrana

Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Fljótsdalshéraðs unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið Kringilsárrana. Tillagan er hér með lögð fram til kynningar.

Kringilsárrani var fyrst friðlýstur árið 1975, en friðlýsingin var endurskoðuð árið 2003 með tilliti til legu Hálslóns, uppistöðulóns Kárahnjúkavirkjunar. Kringilsárrani er sérstæð gróin landspilda sem mörkuð er af hopi Brúarjökuls. Jökulminjar eru greinilegar á svæðinu og liggja svokallaðir hraukar yfir ranann þveran. Segja má að friðlandið skiptist í þrjú svæði, Kringilsárrana sjálfan, Hreinatungur og Maríutungur

Friðlandið er í umsjón Vatnajökulsþjóðgarðs og er eftirliti og annarri starfsemi sinnt af starfsfólki þjóðgarðsins.

Markmiðið með friðlýsingu svæðisins er verndun lífríkis, sér í lagi hreindýra en svæðið hefur í sögulegu samhengi verið eitt af helstu burðarsvæðum hreindýra á landinu og er hreindýragriðland. Þá eru á svæðinu jarðminjar sem eru taldar fágætar á heimsvísu og hafa ótvírætt verndargildi.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðland í Kringilsárrana er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við Fljótsdalshérað og Vatnajökulsþjóðgarð. Áætlunin er hugsuð sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins og viðhalda verndargildi þess. Í áætlunni er lögð fram stefnumótum til 10 ára, ásamt aðgerðaráætlun til 5 ára.

Frestur til að skila inn athugasemdum er til 24. mars 2017. Hægt er að skila inn á vefnum eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Nánari upplýsingar gefur Linda Guðmundsdóttir, linda.gu@ust.is eða í síma 591-2000.  

Tengt efni: