Kynning á lýðheilsuvísum 2018 á Fljótsdalshéraði

Lýðheilsuvísar Embættis landlæknis, sem eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar, voru kynntir á Hótel Héraði á Egilsstöðum í gær, 6. júní. 

Lýðheilsuvísar eru settir fram til að veita yfirsýn og auðvelda sveitarfélögum landsins og heilbrigðisþjónustunni að greina stöðu hvers heilbrigðisumdæmis. Við val á lýðheilsuvísum er sjónum beint m.a. að þeim áhrifaþáttum sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna.

Á kynningunni komu fram fyrir hönd embættis landlæknis Alma D. Möller landlæknir, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir og Sigríður Haraldsdóttir. Þá flutti Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA, erindi um hvernig lýðheilsuvísar nýtast í starfi HSA. Eva Jónudóttir sagði frá samstarfi Seyðisfjarðarkaupstaðar, Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs í verkefninu Heilsueflandi samfélag og Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir, aðstoðarskólastýra Egilsstaðaskóla, sagði frá starfi skólans sem forystuskóli Heilsueflandi grunnskóla.

Var kynningunni, sem vel var mætt á, stýrt af Björgu Björnsdóttur, verðandi bæjarfulltrúa á Héraði, og flutti Björn Ingimarsson bæjarstjóri ávarp í byrjun.

Allar upplýsingar um Lýðheilsuvísa 2018 má finna á vef Embættis landlæknis