Kynning á frummatsskýrslu um Kröflulínu

Landsnet hefur lagt fram frummatsskýrslu fyrir Kröflulínu 3 til athugunar hjá Skipulagsstofnun.

Kröflulína 3 fer um þrjú sveitarfélög: Skútustaðarhrepp, Fljótsdalshérað og Fljótsdalshrepp. Áætluð lengd línunnar er 122 km og mun hún liggja að mestu samsíða Kröflulínu 2. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta raforkuflutningskerfið, auka stöðugleika og gæði orkuafhendingar á Norður- og Austurlandi.
Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er loftlína aðalvalkostur. Jafnframt er lagt fram mat á nokkrum jarðstrengskostum á línuleiðinni.
Í frummatsskýrslunni er lagt mat á þætti eins og gróður, fuglalíf, jarðmyndanir, fornleifar, náttúruvernd, neysluvatn og vatnsvernd, útivist og ferðamennsku, landnotkun á afrétti, áhættu og öryggismál.

Tillaga að ofangreindri framkvæmd og skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hennar liggur frammi til kynningar frá 16. mars til 5. maí 2017 á eftirtöldum stöðum: Á bókasafninu á Egilsstöðum, á Amtsbókasafninu á Akureyri á sveitarstjórnarskrifstofum Skútustaðahrepps, Reykjahlíð og Fljótsdalshrepps, Végarði og bæjarskrifstofum Fljótsdalshéraðs, Egilsstöðum, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrslan er aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar, á vef Landsnets og á vef verkfræðistofunnar EFLU.

Niðurstöður frummatsskýrslu verða kynntar á opnu húsi frá klukkan 18:00 til 21:00 á eftirtöldum stöðum: Félagsheimilinu Skjólbrekku í Skútustaðahreppi þann 27. mars, Icelandair hótel Hérað á Egilsstöðum þann 28. mars og í Nauthól í Reykjavík þann 5. apríl.

Allir geta kynnt sér frummatsskýrsluna og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 5. maí 2017 til Skipulagsstofnunar, Borgartúni 7b, 105 Reykjavík eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.