Kvennafrídagur gegn kynferðisofbeldi

Kvennafrídagurinn er 25. október. Dagurinn er helgaður baráttu kvenna gegn kynferðisofbeldi. Í tilefni dagsins verður haldinn útifundur á Egilsstöðum og hefst hann kl. 16.00. Gengið verður frá íþróttahúsinu á Egilsstöðum að Tjarnargarðinum, en þar er gert ráð fyrir að fundurinn standi til kl. 17.00. Haldnar verða ræður og sungið. Þær konur sem eru fæddar 1975 eru sérstaklega kallaðar til leiks í tilefni af 35 ára sögu kvennafrídagsins. Rútuferðir verða farnar frá flestum þéttbýlisstöðum á Austurlandi.

Í tilefni af deginum munu konur sem starfa hjá Fljótsdalshéraði, hvort sem er á skrifstofu sveitarfélagsins eða í stofnunum þess, yfirgefa vinnustað sinn kl. 14.25. Vegna þessa hafa leikskólarnir óskað eftir því að þeir foreldrar sem eiga þess kost, sæki börn sín fyrir þann tíma. Leikskólunum verður þó ekki lokað fyrir þau börn sem ekki eiga þess kost að verða sótt.