Krummaljóð á veggjum

Krummi hefur sett mark sitt á líf margra íbúa Fljótsdalshéraðs í vetur og vor. Eftir áramótin komu saman í leikskólanum Tjarnarlandi fólk úr ýmsum áttum og vann saman að krummmaverkefnum í fjölbreyttum smiðjum. Þeir sem tóku þátt í verkefninu voru voru nemendur leikskólans Tjarnarlands, Félag eldri borgara, starfsbraut M.E. og starfsfólks Stólpa – iðju fyrir fatlaða. Áætlað er að um 150 þátttakendur hafi komið að smiðjustarfinu á einn eða annan hátt.

Samstarfið ól af sér ýmsar listrænar afurðir eins og krummaskúlptúr, stóran krummalaup, krummabútasaumsteppi, krummabrúðuleikhús, krummakór og krummadans. Uppskeruhátíðin fór fram á listahátíðinni „List án landamæra“ í Sláturhúsinu – menningarsetri, á Egilsstöðum í byrjun maí. Þar var krummi heiðraður með söng, dansi og myndlist. Um 500 manns sóttu sýninguna, sem stóð yfir í 10 daga.

Í framhaldi af krummaverkefninu var ákveðið að gera Fljótsdalshérað að krummahéraði í tengslum við verkefnið „Ljóð á vegg“, sem fyrst var fyrst framkvæmt árið 2008. Þá birtust ástarljóð Páls Ólafssonar á veggjum nokkurra bygginga í sveitarfélaginu í tengslum við sumarsýningu Minjasafns Austurlands. Tveim árum síðar voru nokkur úrvals ljóð Hákonar Aðalsteinssonar sett upp en nú taka við ljóð yngstu kynslóðar á Fljótsdalshéraði. Það voru elstu nemendur leikskóla og nemendur 4. bekkjar grunnskóla af öllu Héraði sem sömdu krummaljóðin. Ljóð þeirra má nú sjá á húsveggjum á nokkrum fjölförnum stöðum á Egilsstöðum og í Fellabæ, íbúum og gestum til skemmtunar og augnayndis. Myndskreytingar af krumma eru við flest ljóðanna og eru þær unnar af leikskólabörnum í Tjarnarlandi.

Verkefnastjórn er yfir verkefninu og í henni eru fulltrúar skólasamfélagsins, sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs og Safnahússins á Egilsstöðum. Stefnt er að því að sett verði upp ný ljóð a.m.k. annað hvert ár og skulu ljóðin eða höfundarnir tengjast Fljótsdalshéraði eða Austurlandi á einhvern hátt. Það er ósk verkefnastjórnar að ljóðin eigi eftir að lífga upp á tilveru Héraðsbúa og gleðja gesti og gangandi.