Krabbameinsfélag Íslands opnar starfsstöð á Austurlandi

Starfsstöð Austurbrúar að kvöldlagi í aprílmánuði.
Starfsstöð Austurbrúar að kvöldlagi í aprílmánuði.

Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs 15. apríl sl. fól bæjarstjórn bæjarstjóra að undirrita fyrirliggjandi samning við Krabbameinsfélag Íslands um ráðgjöf og forvarnir á Austurlandi, gegn krabbameini. Jafnframt fagnaði bæjarstjórn því að Krabbameinsfélag Íslands skuli nú staðsetja starfsmann á Austurlandi til að sinna þessari þjónustu.

Krabbameinsfélag Íslands verður með skrifstofuaðstöðu fyrir starfsmann sinn að Tjarnarbraut 39 á Egilsstöðum, þar sem Austurbrú er m.a. með skrifstofur sínar, en auk þess mun starfsmaður Krabbameinsfélagsins sinna ráðgjöf og stuðningi við sjúklinga og aðstandendur á starfsstöðvum HSA eftir þörfum og nánara samkomulagi.

Aðilar að samningi þessum, sem er tímabundinn og gerður til eins árs, eru: Krabbameinsfélag Íslands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Krabbameinsfélag Austurlands, Krabbameinsfélag Austfjarða og Fljótsdalshérað.

Krabbameinsfélag Íslands hefur þegar ráðið starfsmann til að sinna verkefninu og er það Margrét Helga Ívarsdóttir læknir á Reyðarfirði og hóf hún störf þann 15. mars 2020.