Jafnréttisnefnd Fljótsdalshéraðs, í samvinnu við Jón Inga Sigurbjörnsson og nemendur hans í aðferðarfræði á Félagsfræðiskor M.E. gerði nýverið könnun á nýtingu fæðingarorlofs á meðal foreldra barna á leikskólaaldri í sveitarfélaginu.
Könnunin var nafnlaus og ekki hægt að rekja hana til þeirra sem svöruðu. Svarhlutfall var rúmlega 60%. Fyrst og fremst var hér um upplýsingaöflun að ræða en svörin munu gefa vísbendingu um stöðu þessara mála á Fljótsdalshéraði, jafnt hvernig foreldrar haga töku fæðingarorlofs og viðhorfum til orlofsins.
Af athyglisverðum niðurstöðum má nefna kynjamuninn á viðhorfum til töku fæðingarorlofs, aðstæður eða viðhorf á vinnustöðum vegna fjarveru foreldra út af veikindum barna og munur á gerð vinnustaða þar sem kynin vinna. Konur vinna meira á opinberum vinnustöðum þar sem konur eru oftar en ekki yfirmenn, en karlar vinna frekar hjá einkafyrirtækjum undir stjórn karla.
Leikskólarnir í sveitarfélaginu dreifðu könnuninni til foreldra sem þar eiga börn og tóku á móti svarlistum. Jafnréttisnefnin vill sérstaklega þakka Jóni Inga, nemendum hans og starfsfólki leikskólanna gott samstarf. Til þess að hvetja fólk til þátttöku fylgdi könnuninni einskonar happdrætti. Þeir heppnu reyndust vera Jóhann Gunnarsson og Þorgerður Sigurðardóttir Lagarfelli 8 og unnu þau sér inn kvöldverð á Gistihúsinu Egilsstöðum.
Jafnréttisnefnd Fljótsdalshéraðs gaf árið 2005 út stefnu í jafnréttismálum fyrir sveitarfélagið. Eitt af því sem tekið er fram í stefnunni er að fylgst verði með hvernig töku fæðingarorlofs er háttað hjá foreldrum. Það má því segja að með könnuninni sé verið að fullnægja þessu ákvæði jafnréttisstefnunnar.
Niðurstöður könnunarinnar er að finna hér og á heimasíðu Fljótsdalshéraðs undir Útgefið efni - Ýmislegt.