„Kona á skjön“ Áhugaverð sýning í Safnahúsinu

Við opnunina í Safnahúsinu var haldin spurningakeppni eða „kaffikviss“ sem meiri hluti sýningargesta…
Við opnunina í Safnahúsinu var haldin spurningakeppni eða „kaffikviss“ sem meiri hluti sýningargesta tók þátt í. Á myndinni má sjá nokkra gestanna misþungt hugsi.

Nýverið var opnuð sýning um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Sýningin er farandsýning. Hún var fyrst sett upp á Sauðárkróki sumarið 2017, þá á Borgarbókasafni Reykjavíkur, fór þaðan á Bókasafn Akraness, síðan á Amtsbókasafnið á Akureyri og komst loks í Egilsstaði þar sem hún verður til nóvemberloka.

Sýningarhöfundar eru Kristín Sigurrós Einarsdóttir, leiðsögumaður og kennari, og Marín Guðrún Hrafnsdóttir, bókmenntafræðingur og langömmubarn Guðrúnar. Titill sýningarinnar „Kona á skjön“ er sóttur í lokaverkefni Marínar sem snýst öðrum þræði um að miðla merkum rithöfundaferli Guðrúnar með sýningu sem geymir upplýsingar um ævi hennar og verk á textaspjöldum í bland við persónulega muni.

Guðrún var rétt að verða sextug þegar fyrsta bók hennar kom út en hún náði að skrifa 27 bækur áður en yfir lauk. Bækur hennar voru mjög vinsælar á sínum tíma, hafa reyndar alltaf verið mikið lesnar, þrátt fyrir andstöðu menningarelítunnar, en urðu aftur gríðarvinsælar fyrir nokkrum árum síðan. Þær hafa meðal annars í nokkur ár verið mest lesnu bækurnar á Bókasafni Héraðsbúa.

Frekari upplýsingar um Guðrúnu frá Lundi má nálgast í Skáldatalinu  og lokaverkefni Marínar í Skemmunni