Föstudaginn 11. janúar 2008 verða sparkvellirnir í Hallormsstað og á Brúarási og Fellavöllur formlega teknir í notkun á Fljótsdalshéraði með athöfn á hverjum stað.
Í Hallormsstað og á Brúarási er um löglega KSÍ sparkvelli að ræða, byggða í samvinnu við KSÍ, og eru þeir hluti af átaki KSÍ vegna uppbyggingu sparkvalla um allt land. Fljótsdalshérað ber þó meginkostnað við framkvæmdir en Fljótsdalshreppur greiðir hluta kostnaðar við sparkvöllinn í Hallormsstað. Aðalverktaki sparkvallanna var Héraðsfjörður. Styrktaraðilar sparkvallaátaksins eru: Olís, Vís, Eimskip og Kaupþing Banki.
Fellavöllur er upphitaður gervigrasvöllur með lýsingu, 68x105 metrar að stærð. Völlurinn er gerður samkvæmt FÍFA star II kröfum og uppfyllir hann öll skilyrði keppnisvallar að undanskildum kröfum um áhorfendasvæði. Fasteignafélagið Fasteign ehf. á vallarsvæðið og leigir Fljótsdalshéraði það. Vallarhús er við völlinn með búningsaðstöðu, aðstöðu fyrir þjálfara og snyrtingum.
Hönnuðir Fellavallar eru Landslag ehf, VGK Hönnun og RTS verkfræðistofa. Héraðsfjörður var aðalverktaki vallarins og sá VGK Hönnun um umsjón og eftirlit með framkvæmdum. Tímasetningar eru þessar vegna opnunarathafnanna:
Kl. 10:00 Vígsla sparkvallar við Hallormsstaðaskóla.
Kl. 13:00 Vígsla sparkvallar við Brúarásskóla.
Kl. 17:00 Vígsla Fellavallar
Stutt dagskrá verður á hverjum stað þar sem vellirnir verða formlega opnaðir, börnum verða færðar gjafir, skólar og íþróttahreyfingin munu verða með leiki, glens og gaman.
Um leið og Fljótsdalshérað þakkar KSÍ, Fljótsdalshreppi, verktökum, starfsfólki og styrktaraðilum fyrir gott samstarf eru íbúar sérstaklega boðnir velkomnir til vígslnanna.