Kjuregej kynnir þjóðlagaplötuna í Barra

Hljómplötuútgáfan Warén Music hefur gefið út hljómplötuna Kjuregej – Lævirkinn. Á henni syngur sakha-jakútíska listakonan Kjuregej Alexandra Argunova sextán lög, flest þeirra þjóðlög á jakútsku en einnig lög á rússnesku og íslensku. Þrettán þeirra eru hljóðrituð á árunum 2009 til 2011 á Austurlandi en þrjú laganna eru fágætar upptökur sem voru hljóðritaðar árið 1972 hjá Ríkisútvarpinu þar sem Kjuregej syngur ásamt gítarleikaranum Gunnari H. Jónssyni.

Undirleikur er að öðru leiti mestu í höndum Charles Ross. Halldóri Warén hljóðritaði, hljóðblandaði og framleiddi ásamt því að sjá um hljóðfæraslátt í nokkrum laganna. Útsetningarnar eru samstarfsverkefni Kjuregej, Charles Ross og Halldórs Warén. Veglegur bæklingur fylgir með þar sem túlkun Kjuregej á lögunum er á íslensku og ensku. Hönnun var í höndum Villa Warén.

Laugardaginn 17. desember verður diskurinn til sölu á markaði Barra við Valgerðarstaði í Fellum þar sem Kjuregej kemur einnig fram. Einnig er hægt að panta hann beint hjá Warén Music. Hlusta má á sýnishorn á  www.soundcloud.com/warenmusic en að auki má sjá skemmtilegt myndskeið af upptökunum á YouTube en þaðan er fengin myndin sem fylgir fréttinni.