Kepptu til úrslita í körfubolta

Strákarnir í 9. flokki Hattar, í körfuknattleik, fóru um síðustu helgi til Reykjavíkur og tóku þátt í úrslitakeppni í Íslandsmótinu, í sínum aldursflokki.  Fjögur lið kepptu til úrslita. Fyrst voru tveir undanúrslitaleikir, en síðan var einungis keppt um gull og silfur. Í undanúrslitunum keppti Höttur við lið KR og var það mjög jafn og spennandi leikur. Á  síðustu sekúndu fékk KR dæmt umdeilt víti og náði með því að skora sigurstigið í leiknum og vann því leikinn með minnsta mögulegum mun. Í úrslitaleiknum vann svo lið KR lið Stjörnunnar og varð þar með Íslandsmeistari í þessum aldursflokki. 

Lið Hattar í 9. flokki hefur staðið sig með mikilli prýði í vetur undir stjórn Björns Einarssonar þjálfara og endar veturinn í hópi bestu liða landsins, eftir margar og strangar keppnisferðir á Reykjavíkursvæðið.  Á mánudagskvöldið var svo uppskeruhátíð þar sem leikmenn og foreldrar grilluðu saman og horfðu á beina útsendingu frá úrslitakeppni karla í körfubolta og klippur úr leik strákanna við KR.