Karnivalsýning á heimsmælikvarða á Vilhjálmsvelli

Það er ekki ofsögum sagt að örugglega hafi aldrei eins mikið staðið til á Ormsteiti. Teitið verður sett á Vilhjálmsvelli á föstudagskvöldið  með mikilli og skrautlegri karnivalhátíð.

 

Fengnir voru írskir meistarar til uppfærslu á Karnival sýningu. Einnig leggur Fáskrúðsfirðingurinn Jónas Steinsson sín lóð vogarskálarnar við skipulagninguna.

Við litum við á æfingu hjá Karnivalhópnum í Sláturhúsinu á mánudagskvöld. En lokaæfing fer fram á fimmtudagskvöld. Karnivalhópurinn er þétt skipaður og í honum eru 120 manns. Gengið verður á stultum, eldi spúið, svifið um loftin á reiðhjólum og svo mætti lengi telja. Jónas Steinsson segist geta fullyrð að þvílík sýning hafi aldrei verið sett upp hér á landi. “Þetta verður ógleymanlegt. Það hefur aldrei verið settur upp eins stór karnivalhópur á Íslandi” segir Jónas sem undanfarna daga hefur staðið sveittur við að kenna börnum, unglingum og fullorðnum hinar ótrúlegustu æfingar.

Hinn írski Mark Hill og föruneyti hans kom með þéttpakkaðan sendiferðibíl frá Írlandi með Norrænu. Bíllinn var sneysafullur af búningum og tækjum til karnivalsýninga af þessari stærðargráðu. Mark Hill segist hafa skipulagt marga hátíðina í gegnum tíðina í erlendum stórborgum. “Við ætlum að setja upp magnaða eldsýningu á Vilhjálmsvelli. Svo endar hátíðin með því að gengið verður fylgtu liði frá Vilhjálmsvelli niður í Egilsstaðavík. Þar munum við setja upp ógleymanlegt atriði. Fleytt verður stórum lömpum og sjónarspilið verður mikið. Í bátahúsinu höfum við einnig undirbúið tilþrifamikla sýningu.” sagði Mark Hill sem var í óða önn að undirbúa tæki og tól til sýningar.

Karnivalhátíðin er á vegum Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og Ormsteitis, í samstarfi við Menningarráð Austurlands og Vesterålen. 

Dagskrá Ormsteitis má nálgast á www.ormsteiti.is

Ljósmyndin er frá æfingu við Sláturhúsið í gærkvöldi.