Kaldar strendur - samsýning í Sláturhúsinu

Opnuð var samsýning 12 listamanna frá Íslandi og Noregi í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, laugardaginn 17. janúar síðastliðinn. Mjög vel var mætt á opnunina en þangað komu um og yfir 100 manns.


Sýningin er fjölbreytt en hún býður upp á málverk, textílverk, ljósmyndir og vídeoverk, í allt eru 65 verk til sýnis. Öll verkin eru til sölu og ef áhugi er fyrir kaupum á verkunum er hægt að tala við þann sem er á staðnum hverju sinni eða hafa samband beint við viðkomandi listamann.

Listamennirnir sem sýna eru:  Agnieszka Sosnowska, Svandís Egilsdóttir, Aino Grib, Oili Puolitaival, Ingrid Larssen, Ove Aalo, Íris Lind Sævarsdóttir, Ólöf Björk Bragadóttir, Myriam Borst, Kristín Scheving, Ingunn Reinsnes og Siv Johansen.
Hugmyndin af sýningunni kviknaði eftir samstarf listamanna á vegum menningarráðanna á Austurlandi og í Vesterålen í Noregi. Síðastliðin ár hafa listamenn frá báðum þessum landshlutum skipst á að heimsækja hvern annan. Ferðalögin urðu innblástur til þessara sýningar en hún var sett upp á þremur stöðum í norður Noregi á síðastliðnu ári. Fyrsta sýningin var sett upp í Gellerí Apotheket í Stokmarkens og í kjölfarið var hún sett upp í Gallerí Hildreland í Bø. Í nóvember opnaði sýningin svo í Harstad Kunstforening. Sýningin í Sláturhúsinu er að mestu leyti sambærileg við þær sýningar sem hafa verið settar upp í Noregi en það eru aðeins fleiri verk til sýnis hér.

Kristín Scheving, einn af listamönnunum, segir að samstarfið á milli Austurlands og Vesteralen í Noregi hafi verið til staðar í nokkur ár og felist þau í allskyns skiptum á menningu og listum.  Þar má t.d nefna að jasstónlistarfólk hefur ferðast á milli á jasshátíðir á báðum stöðum. Þá hefur kvikmyndagerðafólk, leikarar, dansarar, myndlistarfólk og fleiri og fleiri átt samskipti sín á milli og heimsótt hvort annað vegna sinnar listsköpunar.  vegaHÚSIÐ hefur einnig tekið þátt í samstarfinu með því að senda hljómsveitir frá Fljótsdalshéraði síðustu 3 árin á rokkhátíð til Noregs.  Kristín segir að samstarfið sé mjög mikilvægt og margt spennandi framundan. Hún segir að ekkert sé eins hollt fyrir listafólk eins og að deila því sem það er að vinna að.  Út frá einu samstarfi spretti oft annað slíkt eða nýjar hugmyndir sem geti verið upphaf að sambærulegu ferðalagi. Athyglisvert er að horfa til þess að aðeins er einn karlmaður á meðal listamannana sem sýna á þessari samsýningu. Kristín segir að það hafi alls ekki verið markmiðið að listakonur yrðu í svo miklum meirihluta en einhverja hluta vegna virðist vera meira af konum í listageiranum á Austurlandi og Vesteralen en körlum.

Sýningin verður opin daglega frá kl. 14 – 18 til 8. febrúar.