Jólin undirbúin í leikskólunum

Í byrjun desember var foreldrum leikskólabarna á Tjarnarlandi boðið í jólakaffi og piparkökur sem nemendur höfðu bakað í leikskólanum. Sú hefð er komin á að foreldrar og börn skreyta deildir skólans með því að mála saman jólamyndir á gluggana. Starfsfólk málar reiti á gluggana og fær hver fjölskylda síðan einn reit til að myndskreyta. Þann 3. og 4. desember voru einnig þemalok á haustönninni og höfðu nemendur og kennarar komið verkefnum annarinnar fyrir á veggjum og hillum skólans. Börnin fóru síðan um skólann með foreldrum og sögðu frá verkefnunum sem flest öll tengdust samfélaginu okkar fyrr og nú og náttúru og dýralífi á Fljótsdalshéraði.