- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Sú hefð hefur skapast síðustu ár að á þorrablóti Egilsstaða sem haldið er á bóndadag er afhentur farandgripurinn Þorrinn sem Hlynur á Miðhúsum hefur skorið út. Í ár var það Jobbi í Myndsmiðjunni.
Ávarpið sem Stefán Bogi Sveinsson byggði á punktum Þorrablótsnefndar og flutti við afhendinguna fylgir hér.
„Ágætu þorrablótsgestir,
Forseti bæjarstjórnar fær á hverju ári það skemmtilega hlutskipti að afhenda Þorrann hér á Þorrablóti Egilsstaða. Þorrinn er fallegur smíðisgripur sem Hlynur Halldórsson á Miðhúsum skar út og er hann nú afhentur í 22. skiptið.
En Þorrinn er vitaskuld meira en bara gripurinn sjálfur. Þorrinn er viðurkenning og þakklætisvottur sem samfélagið sjálft veitir einhverjum sem hafa með störfum sínum, hvort sem er í menningarlífi, íþróttum, atvinnulífi eða hverju öðru sem er, auðgað mannlífið og gert Egilsstaði að betri stað fyrir okkur öll. Ég get ekki hugsað mér neina betri viðurkenningu að hljóta en slíkt þakklæti veitt af grasrótinni, fólkinu sjálfu sem myndar samfélagið.
Þorrann að þessu sinni hlýtur einstaklingur sem sýnt hefur fram á hversu mikils virði það getur verið að sinna starfi sínu af alúð og kostgæfni. Hann hefur þjónustað okkur í 40 ár, ekki aðeins íbúa Fljótsdalshéraðs heldur Austurlands alls.
Hann hefur á þessum tíma staðið af sér veður og vinda í ýmsum skilningi og kannski ekki síst þær ótrúlegu breytingar sem orðið hafa á hans starfsumhverfi með framþróun tækninnar. En þrátt fyrir allar breytingar hefur hann samt sem áður haldið áfram og aðlagast breyttum tímum.
Hann hefur um áraraðir tekið af okkur ljósmyndir af öllum helstu tilefnum sem mannsævin gefur, alltaf reiðubúinn og til taks hvort sem er fyrir fjölskyldur eða hópa og hefur farið um árum saman og tekið skólamyndir af okkur og börnunum okkar. Hann tók einnig upp þann skemmtlega sið að taka öskudagsmyndir af prúðbúnum gestum þann dag og hefur á aðventunni fengið jólasveinana sjálfa til samstarfs um myndatökur með börnum. Þessar myndir hefur hann svo gefið þeim foreldrum sem vilja. Nú síðast hefur hann ásamt sonum sínum byggt upp glæsilega verslun og ljósmyndastúdíó hér í bæ.
Ágætu gestir, Þorrann í ár hlýtur Jósef Marinósson ljósmyndari. Jobbi í Myndsmiðjunni.“