Jákvæð afkoma af rekstri Fljótsdalshéraðs

Ársreikningur Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2006 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs í gær.  Þar kemur fram að sveitarfélagið var rekið með 246 milljón króna rekstrarafgangi á árinu 2006 

samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta stofnanir sveitarfélagsins.

Afkoma A-hluta var jákvæð sem nemur 237 milljónir króna.  Fyrir fjármagnsliði var rekstrarniðurstaða A og B hluta jákvæð um 393 milljónir króna á móti 354 milljónum króna í A hluta.

 

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 2.248 millj. kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 1.993 millj. kr.

 

Rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði námu alls 1.854 millj. kr. í samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af voru rekstrargjöld A hluta 1.639 millj. kr. 

 

Veltufé frá rekstri nam 497 millj kr. hjá samstæðu A og B hluta, þar af  er veltufé frá rekstri í A hluta um 419 millj. kr.

 

Fjárfestingar ársins námu nettó 753 millj. kr. hjá samstæðu A og B hluta, þar af 630 millj. kr. nettó í A hluta.

 

Lántökur námu 170 millj. kr. sem eru eingöngu hjá B hlutafyrirtækjum, HEF ehf og Sorpstöð Héraðs.  Engar lántökur voru í A hluta.

 

Afborganir lána skv. ársreikningi  samantekins A og B hluta námu samtals um 169 millj. kr.,  þar af 110 millj. kr. hjá A hluta.

 

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2006 nam 1.312 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en þar af nam eigið fé A hluta 1.111 millj. kr. Eiginfjárhlutfall hækkar milli ársloka 2005 og 2006 úr 30% í 33% og í A hluta úr 34% í 38%.

 

Þann 1. desember 2006 voru íbúar Fljótsdalshéraðs 4.644 og fjölgað um 18,9% á árinu. Skuldir og skuldbindingar á íbúa í A hluta sveitarsjóðs lækkuðu á árinu um 48 þús. kr. og voru í árslok 386 þús. kr. á meðan eignir lækkuðu um 33 þús. kr. á íbúa og námu 626 þús. kr. á íbúa. 

 Beitt er sömu reikningsskilaaðferðum og á árinu 2005. Ársreikningur 2006 verður lagður fram til seinni umræðu í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs til samþykktar þann 4. apríl.   Hægt er að nálgast afrit af ársreikningnum á heimasíðu Fljótsdalshéraðs www.egilsstadir.is undir liðnum Stjórnsýsla - Fjármál, eða hér.