Íþróttafólk Fljótsdalshéraðs 2019

Á myndinni eru Sigurður Gunnarsson, formaður íþrótta- og tómstundanefndar, Mikael Arnarsson sem tók …
Á myndinni eru Sigurður Gunnarsson, formaður íþrótta- og tómstundanefndar, Mikael Arnarsson sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd Gabríels, Lísbet Eva Halldórsdóttir og Stefán Bogi Sveinsson forseti bæjarstjórnar.

Á bæjarstjórnarfundi rétt í þessu voru veittar viðurkenningar þeirri konu og þeim karli sem hlutu titlana Íþróttakona og Íþróttakarl Fljótsdalshéraðs 2019.  En það voru Lísbet Eva Halldórsdóttir fimleikakona og Gabríel Arnarsson kraftlyftingamaður sem hlutu titlana.

Lísbet Eva er á sautjánda ári, hefur æft fimleika frá fjögurra ára aldri og hafa fimleikar átt hug hennar frá því hún mætti á fyrstu æfingu. Í unglingaflokki kvenna hefur Lísbet verið bæði bikar- og deildarmeistari. Í blönduðu liði unglinga hefur Lísbet verið bæði bikar-, Íslands- og deildarmeistari. Síðan Lísbet byrjaði að keppa hefur hún verið á palli nánast á öllum mótum síðan 2013 með liðum sínum og náð einum besta árangri sem fimleikakona í Hetti. Lísbet hefur tvisvar sinnum náð lágmörkum til að taka þátt í úrtaksæfingum fimleikasambands Íslands fyrir Evrópumót í hópfimleikum, árið 2015 og 2017. Lísbet er einnig yngsta stúlka innan fimleikadeildar Hattar sem hefur náð inn á úrtaksæfingu FSÍ.

Gabríel er 19 ára, hefur keppt í kraftlyftingum síðan 2016 og keppt fyrir Lyftingafélag Austurlands frá stofnun félagsins 2017. Gabríel á að baki þrjá Íslandsmeistaratitla í sínum þyngdarflokki, árin 2017, 2018 og 2019. Hann keppti með íslenska landsliðinu í kraftlyftingum á Norðurlandamóti ungmenna árið 2018 og varð Norðurlandameistari. Gabríel hefur undanfarið ár verið að æfa ólympískar lyftingar og fékk boð á Norðurlandamót nú í nóvember. Gabríel er góð fyrirmynd, agaður og skipulagður íþróttamaður, æfir af miklum krafti og leggur hart að sér til að ná árangri.

Er þessu glæsilega íþróttafólki og frábæru fyrirmyndum óskað innilega til hamingju með titlana.