Íþróttafólk Fljótsdalshéraðs 2019

Íþrótta- og tómstundanefnd lagði það til í ár að sveitarfélagið stæði árlega fyrir kjöri og útnefningu íþróttafólks Fljótsdalshéraðs. Tilgangurinn er að vekja athygli á því góða íþrótta- og heilsueflingarstarfi sem unnið er á Fljótsdalshéraði. Hlutgengi í kjöri til íþróttafólks Fljótsdalshéraðs hefur allt það íþróttafólk, 14 ára og eldra, sem er í íþróttafélögum á Fljótsdalshéraði.

Óskað var eftir tilnefningum frá félögum og deildum og fékk nefndin fjölmargar og frábærar slíkar og greinilegt að sveitarfélagið okkar státar af glæsilegu íþróttafólki og framtíðin er gríðarlega björt.

Íþrótta- og tómstundanefnd valdi svo úr þeim tilnefningum sem bárust og hefur nú tilnefnt þrjár íþróttakonur og þrjá íþróttamenn sem kosið skal á milli í rafrænni íbúakosningu sem gildir til helminga á móti vali íþrótta- og tómstundanefndar. Verður kosningin opin frá 23. desember til og með 10. janúar.
Tilnefnd eru eftirfarandi, og er hægt að lesa um árangur þess og ástæður fyrir tilnefningu á kosningasíðunni sjálfri.


Konur:
Jóhanna Lilja Jónsdóttir – skíði
Lísbet Eva Halldórsdóttir – fimleikar
Steinunn Lilja Jóhannesdóttir – knattspyrna

Karlar:
Eysteinn Bjarni Ævarsson – körfuknattleikur
Gabríel Arnarsson – kraftlyftingar
Guðjón Ernir Hrafnkelsson - knattspyrna

Íþróttafólkinu verður veitt viðurkenning á fyrsta bæjarstjórnarfundi nýs árs, þann 15. janúar 2020.