Íslenska er okkar mál - úrslitakeppni

„Íslenska er okkar mál“, úrslitakeppni efstu bekkja grunnskóla á Austurlandi er í dag. 

Það er Menningarmálanefnd Vopnafjarðar sem stendur fyrir keppninni sem haldin  verður í Miklagarði á Vopnafirði í dag, miðvikudaginn 22. nóvember. Þetta er síðari hluti keppninnar, sem vera átti á „Degi íslenskrar tungu“ 16. nóvember, en varð að fresta vegna veðurs. Keppnin hefst með því að A-lið Grunnskóla Egilsstaða og Eiða keppir við Vopnafjarðarskóla um 3. sætið í keppninni en síðan keppa til úrslita lið Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar og B-lið Grunnskólans á Egilsstöðum og Eiðum. Keppninni verður útvarpað beint í Ríkisútvarpinu á Austurlandi og hefst útsendingin kl. 17:05. Spyrill er Karl Th. Birgisson og dómari er Gunnar Gunnarsson. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi keppni er haldin en aðeins fjórir skólar sendu lið til þátttöku og þar af sendi Grunnskólinn á Egilsstöðum og Eiðum þrjú lið, eitt þeirra er dottið úr keppni ásamt liði Djúpavogsskóla.