Íris Lind verður fræðslufulltrúi MMF

Íris Lind Sævarsdóttir verður fræðslufulltrúi MMF og hefur störf 15. ágúst.
Íris Lind Sævarsdóttir verður fræðslufulltrúi MMF og hefur störf 15. ágúst.

Íris Lind Sævarsdóttir hefur verið ráðin í stöðu fræðslufulltrúa Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, MMF. Um er að ræða nýja stöðu við miðstöðina til eins árs, en hlutverk fræðslufulltrúa er að vinna og þróa fræðsluverkefni fyrir miðstig grunnskólanna á Austurlandi í samræmi við aðalnámsskrá grunnskóla.
Fræðslufulltrúi skal einnig vinna að samstarfi við Menntaskólanum á Egilsstöðum og aðrar menntastofnanir á Austurlandi. Fræðslufulltrúi er tengiliður MMF við menntastofnanir á landsvísu.

Fræðslufulltrúi skipuleggur og tekur á móti skólum og öðrum hópum sem heimsækja sýningar og viðburði á vegum MMF. Fræðslufulltrúi tekur einnig þátt í daglegum rekstri MMF, svo sem umsjón með Sláturhúsi, Menningarsetri, vinnustofum og listamannaíbúð. Fræðslufulltrúi heyrir undir forstöðumann MMF og vinnur í samræmi við áherslur og hlutverk miðstöðvarinnar sem er fyrst og fremst að bjóða upp á og efla lista- og menningarstarf.

Íris Lind er með B-Ed í myndlist frá K.H.Í og MA-fine art frá Winchester School of Art, Southampton University. Íris Lind starfaði sem skrifstofustjóri Fræðslunets Austurlands frá 2001 til 2004, umsjónar-, sér- og myndlistarkennari við Egilsstaðaskóla 2004 til 2015. Síðasta vetur var hún brautarstjóri listabrautar Menntaskólans á Egilsstöðum ásamt því að sinna þar listkennslu.

Alls sóttu 6 manns um stöðuna en tveir drógu umsóknina til baka. Íris Lind hefur störf 15. ágúst næstkomandi.