Írarnir komnir aftur

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs – miðstöð sviðslista á Austurlandi, hóf samstarf á síðasta ári við Ormsteiti Héraðshátíð og írsku fjöllistamennina Mark Hill og Mandy Blinco frá  Inishowen Carnival Group Donegal Ireland. Samstarfið er afrakstur af menningarsamstarfi þriggja landa þ.e. Norður Noregs, Vestur Írlands og Austurlands undir stjórn Menningarráðs Austurlands.

Verkefninu var hleypt af stokkunum í fyrra sumar þegar Írarnir komu og héldu námskeið í undirbúningi og skipulagningu í  tengslum við 120 manna karnival á setningarhátíð Ormsteitis 2008.  Karnivalið tókst frábærlega og var glæsilegt, litríkt og fallegt og hægt að fullyrða að slíkar skrautsýningar eru sjald séðar hér á landi.

Í ár verður verkefninu framhaldið og  er markmiðið að efla austfirskar karnivalhefðir og leggja grunn að öflugum austfirskum karnivalhóp.  Vonast er til að þessi hópur geti í framtíðinni byggt sig upp sem  “professional” hópur/fyrirtæki sem  geti sinnt  þeim bæjar- og menningarhátíðum hér austanlands sem og annars staðar, hérlendis og erlendis seinna meir.

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs sótti um styrk til Menningarráðs Austurlands í þetta verkefni og einnig var sótt um styrk í samfélagsjóð Alcoa.  Verkefnið hlaut myndarlegan styrk frá báðum aðilum sem gerði það kleyft að fá írsku fjöllitamennina hingað aftur í sumar. 

Dagana 15. – 25. júlí munu Mark Hill og Mandy Blinco stýra  búningasmiðju þar sem hannaður verður grunnbúnaður fyrir austfirskt karnival.  Saumaðir verða 12 – 15 upplýstir búningar, stórar ljósaskreytingar og ýmiss fylgibúnaður.  Ennþá vantar sjálfboðaliða til að leggja hönd á plóginn og er áhugasamt fólk af öllu Austurlandi kvatt til að kynna sér verkefnið og skrá sig í karnivalhópinn á ormsteiti.is eða hafa samband við Láru í síma 899-4373

Írarnir hafa áralanga reynslu af að setja upp risakarnival í stórborgum í Bretlandi og á Írlandi.  Heimasíða hópsins er www.inishowencarnival.com