Íbúar skreyta saman í hverfunum

Sú nýbreytni hefur verið tekin upp hjá sveitarfélaginu að fá íbúa með í lið við að skreyta hverfin fyrir jólin.  Boðaður var fundur fyrir stuttu með hverfahöfðingjunum frá Ormsteiti í sumar til þess að leiða það starf og fá íbúa með sér í lið.  Mæltist þetta ágætlega fyrir  á þeim fundi.  Þá mun sveitarfélagið leggja til seríur og perur og síðan er það hlutverk íbúanna í hverfunum að koma seríunum upp og skipta um perur þegar þarf.  Ekki verður endilega farin sú leið að höggva sérstakt jólatré til þess að koma fyrir og skreyta, heldur að finna ákjósanlegt tré eða runna í hverfunum sem hægt er að skreyta.  Einnig var sú hugmynd rædd að gróðursetja í sumar tré á einhverjum vel völdum stöðum í hverfunum, nokkurs konar tré hverfisins, sem væri þá hægt að skreyta í framtíðinni.  Fellur það vel að umhverfisstefnu sveitarfélagsins. 

Hverfin geta svo ákveðið að hafa eitthvert tilstand í kringum þetta.  Til dæmis verður kveikt á ljósum á Kolhöfða (Krummakletti) kl. 18.00 föstudaginn 4. desember.  Allir eru velkomnir og hvattir til þess að hafa með sér kakó á brúsa og e.t.v. smákökur.