Íbúar hvattir til að fegra og snyrta um helgina

Dagana 8. og 9. maí 2010 verður haldin árleg hreinsun í þéttbýli á Fljótsdalshéraði. Að þessu sinni býðst íbúum aðstoð við brýn verkefni sem þeir vilja taka að sér í sínu næsta nágrenni. Ef vilji er t.d. til þess að koma ófrágengnum svæðum í sínu hverfi í ásættanlegt horf nú, eða síðar í vor eða sumar, býðst mönnum að fá þangað mold og aðstoð við að fjarlægja stærri hluti. Íbúar geta sent óskir um aðstoð á netfangið freyr@egilsstadir.is   eða hringt í síma 4 700 730. Reynt verður eftir fremsta megni að verða við öllum óskum íbúa.

Allir eru auk þess hvattir til eftirfarandi:
• Fjarlægja bílhræ af einkalóðum og opnum svæðum, minnt er á skilagjald
• Hreinsa rusl í görðum og nánasta umhverfi
• Fjarlægja allar eigur sínar af opnum svæðum
• Laga til í görðum
• Snyrta gróður, þá sérstaklega þar sem hann slútir út fyrir lóðamörk

Hvatt er til þess að íbúar sveitarfélagsins sýni samstöðu í verki og hreinsi til í nánasta umhverfi sínu, þannig að allir geti gengið stoltir um það.

Ef upplýsingar vantar um það sem snýr að framkvæmd átaksins er bent á að hafa samband við héraðs- og umhverfisfulltrúa og fasteigna- og þjónustufulltrúa Fljótsdalshéraðs í síma 4 700 730.