Íbúagátt í undirbúningi

Í komandi aprílmánuði er fyrirhugað að taka í notkun íbúagátt fyrir Fljótsdalshérað. Með íbúagáttinni opnast rafrænn og persónulegur aðgangur íbúa sveitarfélagsins að stjórnsýslu þess. Þannig munu íbúarnir geta séð og nálgast t.d. greiðslustöðu hjá sveitarfélaginu svo sem vegna fasteignaálagningar, sótt með rafrænum hætti eftir ýmissi þjónustu sveitarfélagsins eins og leikskólaplássi og séð tengla þjónustustofnana, fréttir og fundargerðir eftir eigin vali.

Íbúagáttinni er ætlað að auka sjálfvirkni og gagnvirkni í meðferð mála og erinda fyrir íbúa sveitarfélagsins, sem geta þá um leið fylgst með stöðu á eigin málum og erindum á rafrænan hátt. Með henni er markmiðið einnig að draga úr kostnaði vegna útsendingar á greiðsluseðlum frá sveitarfélaginu.

Íbúagáttin verður aðgengileg í gegnum heimasíðu Fljótsdalshéraðs. Þar sem aðgangurinn er persónulegur þarf hver íbúi fyrst að sækja um leyniorð inn á íbúagáttina. Leyniorðið er þá sent í heimabanka viðkomandi þar sem nálgast má hana og skrá sig inn á íbúagáttina. Ef íbúi hefur ekki heimabanka er alltaf hægt að sækja leyniorð á skrifstofu sveitarfélagsins. Þeir sem ekki hafa aðgang að Netinu eða vilja af öðrum ástæðum fá greiðsluseðla senda á pappír heim til sín, geta það áfram sem hingað til. Með opnun íbúagáttarinnar munu menn hins vegar þurfa að óska eftir því sérstaklega. Í marsmánuði verður kynningarefni um notkun íbúagáttarinnar sent inn á öll heimili í sveitarfélaginu.