Hreyfivikan verðlaunuð í Barselóna

Gunnar Gunnarsson, formaður ÚÍA, fór á dögunum til Barselóna á Spáni til að taka á móti viðurkenningu sem Hreyfivikan á Héraði fékk  fyrir að hafa verið eitt besta verkefnið í í evrópsku  „Move Week“ herferðinni sem Evrópusambandið stendur fyrir. Hreyfivikan sem haldin var í fyrsta skipti í fyrra hefur að markmið að fá fleiri Evrópubúa til að vera virka í hreyfingu og íþróttum.

Átta verkefni voru verðlaunuð af þeim rúmlega 900 sem voru í gangi í 32 löndum árið 2012. Rökstuðning fyrir viðurkenningunum má sjá hér, en Hreyfivika á Héraði fékk m.a. viðurkenninguna fyrir það að hafa náð að fá ólíka aðila til að vinna saman að því að gera vikuna að þeim stórviðburði sem hún var og hvatningunni til almennrar hreyfingar í samfélaginu.  

ISCA-samtökin (International Sport and Culture Association) halda utan um verkefnið á alþjóðavísu en Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) er aðili að samtökunum og fylgir því eftir hérlendis. Á Héraði voru  það Íþróttafélagið Höttur og Fljótsdalshérað sem skipulögðu Hreyfivikuna en ýmis íþróttafélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök tóku virkan þátt í viðburðinum.

Á myndinni má sjá Gunnar Gunnarsson taka við viðurkenningunni úr hendi Mogens Kirkeby, forseta ISCA. Myndina tók Sabína Steinunn Halldórsdóttir, UMFÍ.