- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Hreyfivika er komin vel af stað og hefur verið vel mætt í fjölbreytta viðburði þessa fyrstu daga.
Á þriðjudaginn 29. maí stökk til að mynda vaskur hópur kvenna upp á hjólin sín og hjólaði, undir styrkri stjórn Silju Arnfinnsdóttur, að Urriðavatni. Á heimleiðinni var komið við í versluninni River þar sem Björk og Heiðar buðu upp á léttar veitingar og frábær tilboð á vörum.
Í dag, fimmtudaginn 31. maí, bjóða Hjólaormar Þristar upp á léttan hjólatúr fyrir alla fjölskylduna. Er mæting við verslunina Vask klukkan 18:00 og þaðan hjóluð leið sem hentar öllum aldri og endað aftur við Vask. Þar bjóða Hafþór, Guðjón og Sigga upp á grillaðar pylsur og drykki frá Ölgerðinni. Þá verða ýmis tilboð í versluninni sjálfri, sem gætu einmitt hentað hjólandi fjölskyldum fyrir sumarvertíðina.
Á föstudaginn, fyrsta dag júnímánaðar, er svo annar skemmtilegur fjölskylduviðburður í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum. Þar verður Auður Vala Gunnarsdóttir, fimleikakempa með meiru, með Zumbatíma fyrir alla, konur og karla, stóra og smáa, frá klukkan 17:30. Fullkomið fyrir okkur öll að fjölmenna í Íþróttamiðstöðina og dansa inn helgina.
Athugið að alla daga er hægt að nálgast minigolfkylfur, frisbígolfdiska og RINGÓ hringi til láns á Egilsstaðastofu, en frábær aðstaða er til að iðka minigolf við Hlymsdali, frisbígolf í Tjarnargarðinum og RINGÓ á strandblakvöllunum í Bjarnardal.
Hér er svo hægt að sjá alla viðburði Hreyfiviku 2018.
Verum með og tökum þátt!