Hreinsunarhelgi þéttbýliskjarna Fljótsdalshéraðs

Dagana 1. til 3. maí 2009 verður árleg hreinsun í þéttbýli Fljótsdalshéraðs. Óskað er eftir að íbúar taki til hendinni í sínu nánasta umhverfi og leggi sitt af mörkum við hreinsun eftir vetrardvala. Stöndum saman og tökum virkan þátt í átakinu „hreinn bær – okkar sómi“.

Allir eru hvattir til eftirfarandi:
? Fjarlægja bílhræ af einkalóðum og opnum svæðum, minnt er á skilagjald
? Hreinsa rusl í görðum og nánasta umhverfi
? Fjarlægja allar eigur sínar af opnum svæðum
? Laga til í görðum
? Snyrta gróður, þá sérstaklega þar sem hann slútir út fyrir lóðamörk
Sýnum samstöðu í verki og hreinsum til í okkar nánasta umhverfi, þannig að við getum gengið stolt um okkar bæjarfélag.

Ef íbúa vantar upplýsingar um það sem snýr að framkvæmd átaksins er þeim bent á að hafa samband við undirritaða í síma 4 700 700.

Hreinn bær okkar sómi, opnunartímar gámavallar
Gámavöllurinn verður opinn frá kl. 10:00 – 14:00 laugardaginn 2. maí 2009. Þar verður tekið á móti öllu brotajárni endurgjaldslaust eins og aðra daga. Íbúar geta skilað inn 50 kg af blönduðum úrgangi sér að kostnaðarlausu en tekið er á móti öðrum úrgangi skv. gjaldskrá.
Garðaúrgang má fara með á þar til gert svæði utan Eyvindarár. Athugið að þangað má þó eingöngu garðaúrgangur fara, svo sem lauf, mosi, rætur, gras og greinar. Það er stranglega bannað að skilja eftir annan úrgang svo sem byggingaúrgang, búslóðir, ökutæki, sorp og plast.

Rauði kross Íslands tekur á móti öllum skóm og fatnaði á gámavellinum í Tjarnarási.
Að gefnu tilefni er vakin athygli á að rusl verður tekið á mánudagsmorgun eftir hreinsunar¬helgi, þ.e. 4. maí. Ástæða þess er að á undangengnum hreinsunardögum hefur þurft að fara tvær til þrjár ferðir í hverfi þar sem rusl úr görðum hefur verið sett út á lóðarmörk eftir að bílar hafa farið um hverfin. Er því farið framá að íbúar safni rusli saman þessa helgi og komi því út að lóðarmörkum á sunnudagskvöld. Athugið að ekki verður tekið við rusli sem kemur innan úr húsum eða bílskúrum.

Hreinn bær okkar sómi, gæludýr
Margar kvartanir berast inn til sveitarfélagsins vegna umgegni gæludýraeigenda. Ber þar helst að nefna að of mikið er um að hundar gangi lausir bæði með og án eigenda sinna og úrgangur þar af leiðandi ekki hreinsaður frá þeim. Hefur borið svo rammt við að á aðalgötu bæjarins hefur mátt sjá úrgang með allt að 20 metra millibili á gangstéttum. Verður ekki við svo búið. Auk þess eru kattaeigendur minntir á að á varptíma fugla er skylt að halda köttum inni um nætur. Hefur borið nokkuð á að nágrannar kvarti yfir óþrifnaði og ágengni katta. Eru kattaeigendur því beðnir um að sjá til þess að kettir þeirra valdi ekki óþægindum hjá öðrum.
Er þess farið á leit við gæludýraeigendur að þeir kynni sér vel samþykktir um hunda og kattahald á Fljótsdalshéraði sem hægt er að nálgast á heimasíðu bæjarfélagsins, www.fljotsdalsherad.is (undir samþykktir og dýrahald) og að þeir virði þær almennu umgengnisreglur sem þar eru. Fjölmargir gæludýraeigendur fara eftir settum reglum og veita öðrum gott fordæmi, og er þeim þakkað kærlega fyrir sitt framlag.

Hreinn bær okkar sómi, hlutir utan lóða
Talsvert er um að íbúar geymi hluti s.s. ökutæki, tjaldvagna/fellihýsi, timbur, kerrur, hellur o.fl. utan lóða sinna og þá oft á svæðum sem tilheyra sveitarfélaginu en eru ekki hugsuð sem geymslusvæði. Við þessu verður að bregðast og er íbúum bent á að leigja sér geymslusvæði undir eigur sínar komist þær ekki fyrir innan lóðar viðkomandi.