- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Á miðvikudaginn, þann 21. júní 2017, var opnuð í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum sýningin Strandamaðurinn sterki, um afreksmanninn og kúluvarparann Hrein Halldórsson. Við það tilefni var Hreinn sæmdur heiðurskrossi Frjálsíþróttasambands Íslands, en aðeins fimm einstaklingar fá að bera þá orðu á hverjum tíma.
Í ár eru 40 ár síðan Hreinn varð Evrópumeistari í kúluvarpi innanhúss, en keppnin var haldin í San Sebastian á Spáni. Í sínu fyrsta kasti kastaði Hreinn kúlunni 20,59 metra og bætti þar með sitt eigið Íslandsmet um 1,7 metra. Hreinn kastaði kúlunni síðar 21,09 metra og setti Íslandsmet sem stóð í 13 ár. Í Íþróttamiðstöðinni er hægt að sjá kastlengdina, en hún er merkt á gólf miðstöðvarinnar.
Hreinn var kjörinn Íþróttamaður ársins þrisvar sinnum á ferlinum, árin 1976, 1977 og 1979.
Auk þess að eiga gífurlega farsælan feril í kúluvarpi var Hreinn forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum í 31 ár, og því viðeigandi að sýning honum til heiðurs sé sett upp í þeirri stofnun.
Sýningin verður opin fram á haust.